Öllum boðin meðferð sem þurfa

Flóttamenn á landamærum Úkraínu við Pólland.
Flóttamenn á landamærum Úkraínu við Pólland. AFP/Louisa Gouliamaki

Allir flóttamenn sem koma hingað frá Úkraínu þurfa að fara í einhvers konar berklarannsókn. Ef fram kemur að einstaklingur sé smitaður af berklum, eða útsettur fyrir slíku smiti eru viðeigandi ráðstafanir teknar, annað hvort með einfaldri lyfjameðferð til að hindra að veikjast síðar, eða „fulla berklameðferð“ svokallaða.

„Öllum verður boðin meðferð sem hana þurfa,“ segir Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis. Einstaklingar sem ekki eru veikir en þó smitaðir af berklum þurfa ekki að fara í einangrun, heldur fara í lyfjameðferð.

Samkvæmt tölum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, WHO, er Úkraína með fjórða hæsta smitfjölda berkla af löndum Evrópu. Kamilla telur almenning á Íslandi ekki þurfa að hafa neinar áhyggjur.

„Ég hef ekki áhyggjur af því að íslensku samfélagi stafi ógn af þessu fólki,“ segir Kamilla. „Heilsufarsógnin er fyrst og fremst þeirra sem eru í þeim aðstæðum sem flóttamenn hafa margir þurft að þola. Sumir hafa mögulega verið í einhvers konar lyfjameðferðum fyrir komu sína hingað eða hafa þurft að þola slæmar aðstæður og veikjast þess vegna.“

Mislingar líklegri

Líklegri almenningsógn en berklar eru mislingar, samkvæmt Kamillu og bætir hún við: „Mislingar eru líklegir til að koma upp við aðstæður eins og eru oft í flóttamannabúðum.“

Kamilla Sig­ríður Jós­efs­dótt­ir á upplýsingafundi almannavarna 21. apríl 2021.
Kamilla Sig­ríður Jós­efs­dótt­ir á upplýsingafundi almannavarna 21. apríl 2021. Ljósmynd/Almannavarnir

Miklir mislingafaraldrar hafa verið í Úkraínu á undanförnum árum en þátttaka almennings í bólusetningu fyrir mislinga þar er minni en hér á landi.

Svolítið er af börnum á Íslandi sem ekki eru bólusett fyrir mislingum og hvetur Kamilla foreldra til að ganga úr skugga um að börnin sín séu bólusett, hafi þau náð 18 mánaða aldri. Einnig bendir hún á að þeir sem ekki eru vissir um hvort þeir séu bólusettir gegn mislingum og munu vera í framlínunni að aðstoða flóttamenn að kanna málið, sérstaklega séu þeir fæddir fyrir árið 1970.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert