Aðildarumsókn að ESB komist rækilega á dagskrá

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vegna innrásar Rússa í Úkraínu er enn meiri ástæða en áður til að Ísland gerist fullgildur aðili að Evrópusambandinu.

Þetta sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, á flokkstjórnarfundi í Reykjanesbæ í morgun.

„Við Íslendingar njótum þess að tilheyra varnarbandalagi Atlandshafsbandalagsins en það nægir ekki eitt og sér. Í ljósi þess að Evrópusambandið hefur tekið sér vaxandi hlutverk í varnar og öryggismálum í kjölfar innrásarinnar, í þeim tilgangi að tryggja betur lýðræði og frið í Evrópu, er enn meiri ástæða en áður til að Ísland gerist fullgildur aðili í þessu samstarfi lýðræðisríkja,“ sagði Logi.

„Það verður að endurnýja samfélagslega umræðu um aðild að sambandinu en einnig skerpa málflutning innan okkar eigin raða. Um er að ræða grundvallarhagsmuni þjóðarinnar og það er tími til kominn að setja aðildarumsókn að Evrópusambandi aftur rækilega á dagskrá.“

Úkraínskir flóttamenn eftir að þeir fóru yfir pólsku landamærin.
Úkraínskir flóttamenn eftir að þeir fóru yfir pólsku landamærin. AFP

Þarf að taka mið að þrennu 

Hann sagði Samfylkinguna fordæma árás Rússa á Úkraínu harðlega og takist rússneskum stjórnvöldum að mylja Úkraínu undir sig með valdi geti það opnað á svipaðar kröfur og hernaðaraðgerðir gegn fleiri löndum við landamæri Rússlands. Þannig sé innrás Rússa ekki bara árás gegn Úkraínu heldur árás gegn sjálfsákvörðunarrétti þjóða og ógn við lýðræði, frið og öryggi til langs tíma.

„Leiðarljós stjórnvalda í viðbrögðum sínum þarf að taka mið að þrennu; að taka fullan þátt í sameiginlegum þvingunaraðgerðum lýðræðisríkja gegn Rússlandi, að styðja íbúa Úkraínu með öllum tiltækum ráðum en einnig leita leiða að tryggja öryggi og styrkja varnir Íslands til framtíðar,“ bætti hann við.

Mörg heimili kvíði komandi mánuðum

Logi sagði víða vera alvarleg teikn á lofti í íslensku samfélagi. Ekki bara þegar kemur að loftslags- og öryggismálum heldur einnig efnahagsmálum, því vísbendingar séu um að mörg heimili þurfi að kvíða komandi mánuðum.

„Vextir hafa hækkað, verðbólga líka og stríð í Evrópu gerir útlitið sannarlega ekki bjartara. Eins gleðilegt og það er að við fetum okkur nú út úr faraldrinum, er mikilvægt að endurræsing hagkerfisins bitni ekki í viðkvæmustu hópum samfélagsins – og auki þannig ójöfnuð enn frekar,“ greindi Logi frá.

Hann benti á að ákveðnir samfélagshópar hafi farið verr út úr Covid en aðrir og að versnandi efnahagsástand muni bæta gráu ofan á svart ef ekki verði brugðist við með mótvægisaðgerðum.

Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson.
Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vill beinskeyttari viðbrögð ríkisstjórnar

„Við í Samfylkingunni höfum kallað eftir beinskeyttum viðbrögðum við þessu; m.a. með því að ríkisstjórnin stígi nú fast inn á framboðshlið húsnæðismarkaðarins, endurreisi félagslega íbúðakerfið, og styðji þingsályktanir Samfylkingarinnar um fleiri félagslegar íbúðir og mótvægisaðgerðir fyrir heimilin; vegna verðbólgu og hækkana á húsnæðiskostnaði,“ sagði hann.

„En ef marka má orð forsætisráðherra og fjármálaráðherra virðist áhugi ríkisstjórnarinnar á því að styðja þau heimili sem eru nú að lenda í vanda, afar takmarkaður. En yfirlýsingar varaformanns og ráðherra Framsóknarflokksins, í þessa veru, eru líklega innihaldslaus hróp úr flokki sem virðist halda að hann sé enn í kosningabaráttu og ekki þegar kominn að ríkisstjórnarborðinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert