Eins og í himnaríki

Ragnheiður Stefánsdóttir skíðaði Laugaveginn um síðustu helgi ásamt fríðu föruneyti.
Ragnheiður Stefánsdóttir skíðaði Laugaveginn um síðustu helgi ásamt fríðu föruneyti.

Ragnheiður E. Stefánsdóttir, mannauðsstjóri hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkur, kallar ekki allt ömmu sína. Hún er alvön útivist, fjallgöngum, hjólreiðum og skíðamennsku og er sífellt að ögra sér og prófa nýja hluti. Ragnheiður hefur gengið, hlaupið og hjólað Laugaveginn, leiðina frá Landamannalaugum og inn í Þórsmörk, en nú var áskorunin enn meiri. Síðustu helgi lagði hún af stað þá sömu leið með skíði undir fótum sér.

Allt á kafi í snjó

„Ég fór fyrst Laugaveginn fyrir um áratug, þá hlaupandi. Ég hef líka gengið hann og þá hefur maður nógan tíma til að njóta landslagsins. Svo kom upp sú hugmynd að hjóla leiðina og það var líka algjörlega geggjað. Þá strax kviknaði hjá mér sú hugmynd að það gæti verið gaman að skíða þessa leið,“ segir hún og segist hafa gripið tækifærið þegar það loks gafst.

„Það er hópur hjá Ferðafélagi Íslands sem heitir Landkönnuðir sem hafði sett slíka ferð á dagskrá í fyrra en henni var frestað vegna Covid og veðurs. En nú voru veðurskilyrði ákjósanleg og geggjaðar aðstæður því það er svo mikill snjór þarna,“ segir Ragnheiður og segir þar oft ekki nægan snjó, sérstaklega þegar komið er inn í Þórsmörk.

Það var stuð á konunum í hópnum sem létu ekki …
Það var stuð á konunum í hópnum sem létu ekki kulda eyðileggja fyrir sér gleðina.

„Það var snjór núna alla leiðina. Laugavegurinn er auðvitað hálendi og þarna eru margar hindranir að sumri til, svo ég tali nú ekki um að vetri til. Við vorum þarna með þrælreyndum fararstjórum, þeim Brynhildi Ólafsdóttur og Róbert Marshall. Það voru ótrúlega margar áskoranir sem komu upp á leiðinni og reyndi mikið á þau að leysa úr þeim.“

Eins og í kvikmynd

Þrjátíu manns lögðu af stað úr höfuðborginni föstudaginn fyrir rúmri viku, en líklega eru ekki margir sem áður hafa farið þessa leið á gönguskíðum. Ferðin hófst í Landmannalaugum þar sem gist var fyrstu nóttina.

„Við þurftum svo að vakna og leggja af stað klukkan fjögur um nóttina því það átti að skella á vont veður klukkan tvö eða þrjú daginn eftir. Markmiðið var að nýta veðurgluggann og komast sem allra lengst áður en veðrið versnaði, en stefnan var tekin á Hvanngil. Við lögðum af stað í logni og myrkri og geggjuðu veðri; þetta var eins og leikmynd í kvikmynd. Það var svo fallegt að ganga þarna í gegnum hraunið upp í Hrafntinnusker; alveg ótrúlegt og það glitti í störnurnar,“ segir Ragnheiður og segir vont veður hafa skollið á þegar komið var í Hrafntinnusker.

Lagt var af stað í kolniðamyrkri og þá komu höfuðljós …
Lagt var af stað í kolniðamyrkri og þá komu höfuðljós sér vel.

„Það skall á með hríð; roki og snjókomu. Í Hrafntinnuskeri var skálinn alveg á kafi í snjó og ekki séns að komast þar inn til að borða nesti, þannig að við rétt hentum í okkur næringu og héldum áfram ferðinni áður en veðrið yrði enn verra. Ferðin gekk vel en þetta var tímafrekt og við vorum ellefu tíma á gangi á laugardeginum og þrettán tíma á sunnudeginum,“ segir Ragnheiður og segir þau stundum hafi þurft að taka af sér skíðin, festa brodda undir skóna og arka af stað með skíðin á bakinu.

„Þetta getur verið pínu bras.“

Tunglsljós og stjörnubjart

„Veðrið á sunnudag var mun betra en á laugardeginum. Það var stórkostlegt að leggja af stað úr Hvanngili og að skíða yfir snæviþakta sandana í sól og logni var eins og í himnaríki. Ferðin gekk vel á sunnudeginum og við gátum notið þess að borða nestið okkar á yndislegum stað og nutum sólarinnar. Það blés þó inn á milli og snjóaði og við tóku nokkrar áskoranir að komast niður brattar brekkur og þá bara að skella broddum undir skóna og fikra sig þannig niður. Þá var það töfrum líkast að skíða í gegnum skóginn inn í Þórsmörk við tunglskin og stjörnubjartan himinn,“ segir Ragnheiður, en stefnan var tekin á Húsadal þar sem bílarnir áttu að bíða til að ferja hópinn aftur til byggða.

Inn á milli kom dásamlegt veður fyrir þá þrjátíu ferðalanga …
Inn á milli kom dásamlegt veður fyrir þá þrjátíu ferðalanga sem fóru á gönguskíðum Laugaveginn.

„Bílarnir ætluðu að ná í okkur inn í Húsadal en svo var svo mikill krapi að þeir komust ekki alla leið þannig að við þurftum að fara lengra og það tók okkur langan tíma,“ segir Ragnheiður.

„Það koma augnablik þegar kuldinn bítur og maður fyllist ónotum en ég veit að eftir á þá fylgir svo mikil vellíðan. Svo lifir maður á þessum minningum endalaust. Ég er stanslaust að rifja upp alls konar augnblik og upplifa þau aftur og aftur,“ segir hún. 

Það snjóaði hressilega á leiðinni.
Það snjóaði hressilega á leiðinni.

„Ég lifi á þessu lengi.“

Ítarlegt viðtal er við Ragnheiði í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert