Engin laus pláss en hægt að búa til rými

Kamilla segir heilsufarsógnina fyrst og fremst þeirra sem eru í …
Kamilla segir heilsufarsógnina fyrst og fremst þeirra sem eru í þeim aðstæðum sem flóttamenn hafa margir þurft að þola. AFP

„Við erum ekki með nein laus pláss á hverjum tíma. Eins og staðan hefur verið síðustu vikur þá er fjöldi einstaklinga sem bíður langtímum saman á bráðamóttökunni eftir legurými. En við vinnum alveg hörðum höndum allan sólarhringinn að búa til þessi rými,“ segir Runólfur Pálsson forstjóri Landspítala í samtali við blaðamann, spurður út í möguleika spítalans að taka á móti einstaklingum með virkt berklasmit.

Von er á fjölda úkraínskra flóttamanna til landsins vegna stríðsástandsins í heimalandi þeirra. Sam­kvæmt töl­um frá Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­inni (WHO) er Úkraína með fjórða hæsta smit­fjölda berkla af lönd­um Evr­ópu.

Heilsufarsógnin fyrst og fremst þeirra

Kamilla Sig­ríður Jós­efs­dótt­ir, staðgeng­ill sótt­varna­lækn­is, telur íslensku samfélagi ekki stafa ógn af mögulegum berklasmitum. Allir flóttamenn sem hingað koma gangast undir berklarannsókn og ef upp kemur smit verður gripið til viðeigandi ráðstafana, meðal annars einangrunar eða lyfjameðferðar. 

„Heilsu­far­sógn­in er fyrst og fremst þeirra sem eru í þeim aðstæðum sem flótta­menn hafa marg­ir þurft að þola. Sum­ir hafa mögu­lega verið í ein­hvers kon­ar lyfjameðferðum fyr­ir komu sína hingað eða hafa þurft að þola slæm­ar aðstæður og veikj­ast þess vegna,“ sagði hún í samtali við mbl.is í dag.

Augljóslega ekki vel í stakk búin

Landspítali er á neyðarstigi og í morgun lágu 88 sjúklingar þar inni með Covid-19, þar af 26 sem bættust við hópinn í gær. Aldrei hafa fleiri legið inni með sjúkdóminn. Runólfur segir stöðuna þunga á spítalanum enda séu enn margir starfsmenn frá vegna veikinda.

Hvernig er spítalinn í stakk búinn að taka á móti sjúklingum sem eru alvarlega lasnir með berkla eða með virkt smit?

„Augljóslega erum við ekki vel í stakk búin miðað við þær aðstæður sem eru núna. Faglega séð erum við það, ég meina við höfum það sem til þarf. En álagið sem stendur er mikið og fyrir vikið er erfitt að skapa viðunandi þjónustuúrræði en það er bara eitthvað sem við þurfum að bregðast við,“ segir Runólfur í samtali við mbl.is.

Hann bindur þó vonir við að Íslendingar séu komnir langleiðina í gegnum þessa stóru Ómíkron-bylgju sem hefur verið viðvarandi frá því í janúar. Innlögnum sjúklinga með Covid-19 fari því vonandi fljótt að linna og sömuleiðis forföllum starfsmanna vegna veirunnar.

Hann segir reynslu annarra þjóða benda til þess að það gæti jafnvel gerst á næstu dögum en þar hafi hápunktur Ómíkron-bylgjunnar varað í um þrjár vikur.

„Þess vegna hefur maður ákveðnar væntingar til þess að maður fari að sjá í áttina að endanum á þessu þó það sé ekki hægt að segja með vissu um það. Við verðum þá betur í stakk búin til að sinna öðrum verkefnum.“

Búast ekki endilega við innlögnum

Hann segir spítalann vera í samráði við stjórnvöld um hvernig skuli takast á við málið. Starfshópur vinnur að undirbúningi verkefnisins og er stofnunin m.a. með tengingu við hann.

„En auðvitað verður bara að koma í ljós hvernig ástandið verður á þeim sem hingað koma. Við eigum líka von á því að um sé að ræða einstaklinga sem eru með langvinna sjúkdóma sem að krefjast meðferðar sem hægt er að veita án innlagnar á spítala. Það er ekki endilega við því að búast að það séu svo margir sem þurfa innlagnir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert