Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Íslandsnefndar NATO, segir ummæli Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, um að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið vegna innrásar Rússa í Úkraínu vera ódýran hræðsluáróður.
„Nú talar Samfylkingin og formaður flokksins um að Ísland eigi að ganga í ESB og tengja innrás í Úkraínu við slíka umsókn. Þetta hljómar eins og aðildarumsóknin vinstri stjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna eftir bankahrunið,“ skrifar Njáll Trausti á facebooksíðu sína.
Hann segir jákvætt að sjá viðbrögð frá ESB í framhaldi af innrásinni. Á undanförnum árum hafi mörg Evrópuríki, þar á meðal ríki ESB, ekki tekið varnar- og öryggismál nógu alvarlega.
„Í dag er staðan jú þannig að í Atlantshafsbandalaginu (NATO) eru 21 aðildarþjóð ESB. Þessi ríki fjármagna um 20% af því fjármagni sem varið er til varnarmála innan Atlantshafsbandalagsins. Þau níu ríki sem er í Atlantshafsbandalaginu og utan ESB fjármagna um 80%, Bandaríkin um 55% og Bretland 10% og aðrar þjóðir minna eins og Kanada og Bretland. Þegar Bretland gekk út úr Evrópusambandinu þá fór hlutur ESB úr 30% í 20%,“ greinir hann frá og bætir við að gott sé að ríki ESB ætli að efla hermátt sinn til varnar- og öryggismála.
Aftur á móti bendir hann á að þau eigi langt í land með að fjármagna varnir Evrópu. Slíkt muni væntanlega taka áratugi.