Jón Arnar Guðbrandsson, veitingamaður og eigandi Grazie Trattoria, keypti heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu í dag þar sem hann auglýsir eftir gestgjafa sem er eldri en 60 ára.
Þegar mbl.is náði tali af Jóni í dag sagði hann að hugmyndin hafi komið er hann var að hlusta á viðtal á K100 við eldri konu sem hafði ekki fengið vinnu sökum aldurs þrátt fyrir flotta ferilskrá.
Jón hafði þá nýverið kominn heim frá Ítalíu en þar höfðu þeir feðgar verið að skoða sig um og undirbúa opnun Grazie Trattoria, sem er nýr ítalskur veitingastaður sem opnar á Hverfisgötu um mánaðamótin.
Á Ítalíu hafði fólk á besta aldri tekið á móti þeim og passað að það færi vel um það meðan þeir væru að borða.
„Amman eða afinn löbbuðu um salinn og voru að tékka á okkur,“ segir Jón og bætir við að þarna hafði hugmyndin fæðst.
Jón segist vilja skapa alvöru ítalska stemningu á staðnum og hún fáist ekki nema að blanda kynslóðunum saman.
„Maður fær þessar hlýju móttökur og besta faðmlag í heimi það er frá mömmu og ömmu," segir hann.
„Staðurinn verður með í kringum 130 – 150 manns í sæti og við ætlum að reyna taka þessa ítölsku stemningu alla leið og okkur fannst þetta partur af því.“
Hann segir að vinnutímarnir verði mjög opnir og fari eftir því hversu mikið hver starfsmaður vill vinna. „Sama hvort það séu fjórir tímar á viku, átta tímar á viku, 16 tímar á viku. Bara hvað viltu vinna mikið?“
Jón lenti í því skemmtilega atviki í vikunni er tveir menn á besta aldri litu inn um hurðina á Grazie Trattoria og spurðu hvað væri að fara opna. Eftir að hafa útskýrt fyrir þeim að ekta ítalskur veitingastaður væri að opna þarna um mánaðamótin bauð annar maðurinn vin sinn fram í vinnu.
Maðurinn sagði við hann: „Heyrðu vantar þig ekki kokk, þessi er kokkur“. „Ég segi við þá, heyrðu kíkið á Morgunblaðið um helgina, við erum að auglýsa eftir starfsmanni sem er eldri en 60. Þeir ljómuðu allir í framan.“
Viðbrögðin við auglýsingunni hafa verið gríðarlega jákvæð að sögn Jóns og fullt af umsóknum komið á hans borð síðan í morgun.
„Það verða 20-30 störf í boði hjá okkur og hluti af því er eldhús og þetta og hitt. Þarna erum við kannski að horfa á sirka 4-6 stöðugildi sem gætu dreifst á einhverja 12-16 manns.“