Vinsældir „ketó“ hafa sýnileg áhrif á mataræði

Ávextir hafa dalað í vinsældum vegna lágkolvetnamataræðisins.
Ávextir hafa dalað í vinsældum vegna lágkolvetnamataræðisins. mbl.is/Hjörtur

Neysla ávaxta hefur minnkað töluvert meðal Íslendinga. Þetta kemur fram í nýrri landskönnun landlæknisembættisins á mataræði Íslendinga 2019-2021. Hólmfríður Þorgeirsdóttir, verkefnisstjóri næringar hjá embætti landlæknis, segir mataræði Íslendinga hafa bæði þokast nær ráðleggingum um mataræði og fjær þeim eftir því hvaða fæðutegundir og næringarefni verið er að skoða.

„Það sem olli vonbrigðum er að ávaxtaneysla hefur minnkað og grænmetisneysla staðið í stað. Þá mætti neysla á heilkornavörum vera meiri,“ segir Hólmfríður en aðeins 2% þátttakenda ná því að neyta 500 gr. af grænmeti og ávöxtum eins og mælt er með. „Hins vegar er jákvætt að neysla á viðbættum sykri minnkar sem og neysla á rauðu kjöti,“ segir Hólmfríður. Neysla á rauðu kjöti hefur minnkað um 10% frá síðustu könnun.

Áhrif „ketó“ mataræðis

Hólmfríður telur líklegt að breytingar á neyslumynstri Íslendinga stafi að hluta af lágkolvetnamatarræðinu eða svokölluðu „ketó“-matarræði sem hefur verið áberandi síðustu misseri.

„Okkur finnst við sjá áhrif af lágkolvetnamataræðinu sem gæti útskýrt til dæmis af hverju ávaxtaneyslan minnkar og neysla á mettaðri fitu eykst,“ segir Hólmfríður sem einnig myndi vilja sjá fleiri taka D-vítamín en einungis rétt rúmlega helmingur tekur D-vítamín sem fæðubótarefni eins og ráðlagt er.

Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert