„Það eru blikur á lofti varðandi verðbólguhorfur. Eitt mikilvægasta verkefnið framundan er að auka framboð í öllum þeim hrávörum sem er að myndast skortur á,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra um stöðuna í efnahagsmálum.
Hún segir að hagkerfi veraldar þurfi að stilla saman strengi sína og að viðskiptaþvinganir á Rússa séu það umfangsmiklar að þær bitni á efnahagi Evrópubúa ásamt því að vörur munu ekki koma frá Úkraínu á meðan stríð geisar þar.
„Mið-Austurlöndin munu þurfa að framleiða meiri olíu, olíuiðnaðurinn í Bandaríkjunum þarf að auka við sig, þær þjóðir sem eru að framleiða hveiti og korn í heiminum þurfa að gera allt sem þær geta til að auka framleiðslu til þess að brúa þetta tímabundna millibilsástand,“ segir Lilja.
Hún segir að Vladimír Pútín Rússlandsforseti reyni að þreyja þorrann og bíði eftir uppgjöf Úkraínumanna en tímann ekki vinna með honum.
Á hvaða vettvangi þarf að þessi samvinna að eiga sér stað?
„Olíuríkin munu eiga samráð sín og milli á sínum vettvangi. Bandaríkin beita núna Sádi Arabíu þrýstingi. Alþjóðaviðskiptastofnunin (WTO) þarf að sinna sínu hlutverki og nýta þarf alla alþjóðlega samvinnu til þess að auka þetta framboð. Til þess að þrýsta heimsverðbólgunni niður og koma í veg fyrir það að það hægist á hagvexti.“
„Í öðru lagi þurfum við að átta okkur á því að það eru ríki sem mögulega gætu lent í greiðslujafnaðarvanda þar sem gegni margra nýmarkaðsríkja á borð við Tyrkland og fleiri, mun veikjast þar sem gengi tryggra gjaldmiðla er að styrkjast, líkt og gerist í óvissu,“ bætir Lilja við.
Enn frekar segir Lilja að Íslendingar verði að huga að birgðastöðu áburðar, hveitis og korns. Birgðir slíkra nauðsynja myndu aðeins duga í sex til átta vikur „þannig að við getum átt von á því að þegar við kaupum inn á nýju verði að það fari beint inn í verðbólguna“.
Hún segist leggja áherslu á að allir komi að borðinu og tali ábyrgð á að bregðast við efnahagsáfallinu sem þú mun dynja á, líkt og gert var sem viðbragð við heimsfaraldri Covid-19.