Ísland úr NATO verði meirihlutasjónarmið

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi alþingismaður, ítrekaði skoðun sína um að Ísland eigi að ganga úr NATO í þættinum Sprengisandi í morgun.

„Ísland úr NATO herinn burt,“ sagði hann.  „Það er minnihlutasjónarmið eins og stendur en það á eftir að verða meirihlutasjónarmið.“

Hann sagði NATO hafa stækkað alltof mikið í austur og nefndi 14 ný ríki þar til sögunnar. Þegar Sovétríkin liðuðust í sundur hafi verið lofað að NATO færðist ekki austur á bóginn í átt að Rússlandi en við það hafi ekki verið staðið.

„NATO á að draga sig til baka,“ sagði hann og bætti við að NATO-ríkin hafi verið að reisa „þetta tjald“.  Fólkið eigi að taka völdin af hergagnaiðnaðinum og stórveldunum.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stofnaðild að NATO reynst farsæl

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, var einnig viðmælandi í þættinum og sagðist hún ekki vera á sama máli og Ögmundur og nefndi að austantjaldsþjóðir hafi sjálfar óskað eftir aðild að bandalaginu. Hún sagði að stofnaðild Íslands að NATO jafnframt hafi reynst farsæl.

Hún sagði hrylling eiga sér stað í Úkraínu. „Sagan segir okkur að þrautseigja Rússa í stríðum er gríðarleg.“

Friðargæsla í austurhéruðum

Ögmundur fordæmdi innrás Rússa í Úkraínu, rétt eins og Lilja, og sagði Rússa eiga að láta af hernaðinum þegar í stað og hverfa á brott með allan her sinn frá landinu.

„Síðan á alþjóðasamfélagið að grípa inn í með friðargæslu í austurhéruðum Úkraínu þar sem hefur verið mannskætt borgarastríð í átta ár,“ sagði hann og taldi að bæði Úkraínumenn og Rússar ættu að fara með heri sína þaðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert