Ekki er útlit fyrir að aðalfundi Eflingar verði flýtt þrátt fyrir kröfu Sólveigar Önnu Jónsdóttur, nýkjörins formanns félagsins, þess eðlis. Trúnaðarráð Eflingar hafði einnig ályktað um að aðalfundi félagsins skyldi flýtt og að hann færi fram fyrir 15. mars. Að öllu óbreyttu fer fundurinn hins vegar ekki fram fyrr en 8. apríl næstkomandi.
Sólveig fól Gunnari Inga Jóhannssyni hæstaréttarlögmanni að krefjast upplýsinga um það fyrir hönd B-listans hvenær boðað yrði til aðalfundar og stjórnarskipta. Kröfubréf var sent á Agnieszku Ewu Ziółkowska sem er sitjandi formaður Eflingar.
Fram kom í svari við bréfinu að ljúka þyrfti reikningum félagsins fyrir aðalfund, en að þeirri vinnu yrði ekki lokið fyrr en í apríl. Þá hefur verið bent á að í lögum Eflingar sé kveðið á um að félagsmenn geti skilað inn tillögum að lagabreytingum út marsmánuð.
Í samtali við mbl.is í lok febrúar sagði Gunnar Ingi þó ekki útséð um það að aðalfundurinn færi fram fyrir 15. mars. Það væri enn krafa hans skjólstæðings. Stjórnin stóð hins vegar fast á sínu og ekki tókst að ná því í gegn.
Gunnar Ingi segir að lítið mál hefði verið að flýta fundinum, ef vilji hefði verið fyrir því.
„Það hefði ekki verið neitt til fyrirstöðu að hafa hann fyrr. Það hefði verið hægt að kalla saman félagsfund og skera úr um þessi atriði. Það var óskað eftir því að hann yrði haldinn en stjórnin varð ekki við því,“ segir Gunnar í samtali við mbl.is.
Aðalfundur Eflingar fer því væntanlega ekki fram fyrr en 8. apríl, en Sólveig tekur þá við formannssætinu af Agnieszku. Sú síðarnefnda verður aftur varaformaður félagsins, en hún tók við formannssætinu af Sólveigu þegar hún sagði af sér í lok október á síðasta ári.