„Það er meirihluti í þinginu fyrir því að hækka veiðigjöld,“ sagði Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, á Alþingi þar sem hann spurði Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, hvort hún ætlaði að sjá til þess að þjóðin fengi hærra og réttlátara verð fyrir auðlindina.
Lilja svaraði og sagði að fara þyrfti betur yfir þessi mál.
„Við þurfum að skoða það þegar ákveðnar atvinnugreinar eru farnar að skila gríðarlegum hagnaði og ég tel að það sé vilji þeirra sjálfra að skila sínu samfélagi meiri arði og ég tel að það sé eðlilegt og sanngjarnt af samfélaginu að gera það,“ sagði hún.
„Mér finnst ljóst að hversu framfarasinnuð þessi ríkisstjórn er sem ég sit í, að það kæmi mér ekkert á óvart að við myndum koma ykkur á óvart,“ sagði Lilja.
Um þetta sagði Sigmar að þau yrðu ekki mikið óljósari svörin.
Hann endurtók því spurninguna og óskaði eftir skýrari svörum frá ráðherra um hvort hún ætlaði að beita sér í málinu.
„Það er alltaf svolítið gaman að vera hérna þegar menn verða svekktir og mér finnst eins og háttvirtur þingmaður, Sigmar Guðmundsson, hafi verið svekktur, þetta var býsna skýrt og öflugt svar hjá viðskiptaráðherranum,“ svaraði Lilja.
Við þessi ummæli Lilju heyrðist hlátur í þingsal.
„Heyriði hvernig liðið lætur? Formaður Viðreisnar enn og aftur, eins ómálefnaleg og hún er nú,“ sagði Lilja. „Má ég tala, enn og aftur byrjar formaður Viðreisnar, ræður ekki við sig,“ bætti hún við.
„Það sem ég vildi segja hins vegar, já við munum beita okkur, við erum í stjórnmálum til að hafa áhrif,“ sagði hún.
Lilja sagðist halda að Viðreisn væri stressuð. Verið væri að taka forystu í málaflokkum sem skipta þjóðina máli, í sjávarútvegi.
„Ég minni á það að háttvirtur formaður Viðreisnar var sjávarútvegsráðherra, hvað gerði hún? Ekkert,“ sagði hún að lokum.