Katrín á leið til fundar með Boris Johnson

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, og Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, og Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er nú á leið til Bretlands þar sem hún hyggst sækja fund með Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, og öðrum leiðtogum JEF-ríkjanna svokölluðu á morgun.

Frá þessu er greint í tilkynningu á vefsíðu breskra stjórnvalda.

Fundurinn sem fer fram í Lundúnum hefst í fyrramálið og mun ljúka um hádegi. Þáttakendur á fundinum verða leiðtogar Bretlands, Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna og Hollands. Þessi ríki mynda Sameiginlegu viðbragðssveitina, e. Joint Expeditionary Force (JEF).

Forsætisráðherra Bretlands hefur einnig boðið leiðtogunum til kvöldverðar í sveitasetri sínu Chequers í suðurhluta Buckighamshire í kvöld.

Á fundinum á morgun verður rætt um ástandið í Úkraínu og frekari stuðning JEF-ríkjanna við stjórnvöld og almenning í Úkraínu. Þá verður einnig rætt um stöðu öryggis- og varnarmála í Evrópu, þ.m.t. í Eystrasaltinu og Norður-Atlantshafi, í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu, að því er segir í skriflegu svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurnum mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert