„Engar eða sáralitlar skemmdir“ urðu á nýja íþróttamannvirkinu í Garðabæ, Miðgarði, í vatnsveðrinu á dögunum.
Mikið vatn safnaðist í kringum bygginguna og vatn flæddi inn í húsið að einhverju leyti í síðustu viku.
Á vef sveitarfélagsins er greint frá því að tekist hafi að forða tjóni. „Mikið vatn safnaðist saman fyrirframan húsið í gær, þriðjudag vegna margra samverkandi þátta. Vegna veðurs og mikilla leysinga rann vatn niður úr hlíðum Kópavogs, niður golfvöllinn og safnaðist saman á nokkrum klukkutímum. Gatnakerfið á svæðinu ásamt móttökukerfum eru enn í vinnslu enda um nýtt hverfi að ræða.
Starfsmenn bæjarins brugðust hratt við, unnu hart að því að dæla vatni frá í alla nótt og bjarga skemmdum, og eru þeim færðar miklar þakkir fyrir. Þá verður farið í mótvægisaðgerðir til að tryggja að vatnið komist sína leið næst þegar slíkt veður kemur,“ segir meðal annars á vef Garðabæjar.
Einnig er tekið fram að engar íþróttaæfingar hafi fallið niður vegna þessa.