Túlka vafann Inga í hag

Undirbúningskjörbréfanefnd rannsökuðu málið á síðasta ári.
Undirbúningskjörbréfanefnd rannsökuðu málið á síðasta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þar sem ný kosn­inga­lög fjalla ekki með jafn skýr­um hætti um skyldu inn­sigl­un­ar kjör­gagna, eins og áður var, komst lög­reglu­stjór­inn á Vest­ur­landi að þeirri niður­stöðu að rann­sókn á hend­ur fyrr­ver­andi for­manns yfir­kjör­stjórn­ar væri ekki lík­leg til sak­fell­ing­ar. Því var málið fellt niður.

Þetta seg­ir í til­kynn­ingu á vefsíðu lög­regl­unn­ar.

Eins og frægt er hef­ur lög­regl­an á Vest­ur­landi haft til rann­sókn­ar brot á kosn­inga­lög­um vegna meðhöndl­un­ar at­kvæða Norðvest­ur­kjör­dæm­is  í kjöl­far síðustu Alþing­is­kosn­inga.

Eft­ir að telja þurfti at­kvæðin aft­ur komu í ljós ýms­ir van­kant­ar á starfs­hátt­um kjör­stjórn­ar sem voru síðar tekn­ir fyr­ir, m.a. af Und­ir­bún­ings­nefnd kjör­bréfa­nefnd­ar. Þurftu þing­menn meðal ann­ars að kjósa um lög­mæti kosn­ing­anna í ljósi mis­ferl­anna.

Ingi Tryggva­son, sem var formaður yfir­kjör­stjórn­ar þegar at­kvæðin voru tal­in, var sektaður um 250 þúsund krón­ur vegna máls­ins og aðrir í kjör­stjórn fengu 150 þúsund króna sekt. Hann hef­ur neitað að borga hingað til.

Skyld­an ekki jafn skýr

Í dag var aft­ur á móti fallið frá rann­sókn­inni og er ástæðan ný kosn­inga­lög nr. 112/​2021 sem tóku gildi þann 1. janú­ar á þessu ári.

„Að mati lög­reglu­stjóra er ekki fjallað með jafn skýr­um hætti um skyldu til inn­sigl­un­ar kjör­gagna líkt og var gert í þágild­andi kosn­inga­lög­um nr. 24/​2000. Ekki er með bein­um hætti fjallað um skyldu til inn­sigl­un­ar kjör­gagna að lok­inni taln­ingu í gild­andi kosn­inga­lög­um nr. 112/​2021,“ seg­ir í til­kynn­ingu lög­reglu.

Kem­ur þar jafn­framt fram að í „1. mgr. 2. al­mennra hegn­ing­ar­laga nr. 19/​1940 kem­ur fram að hafi refsi­lög­gjöf breyst eft­ir að verknaður var fram­in, eigi að dæma eft­ir nýju lög­un­um. Það á bæði við um refs­inæmi verknaðar og refs­ingu og á það við í þessu til­felli.“

Því tel­ur lög­reglu­stjóri vafa vera til staðar um refs­inæmi ætlaðs brots sak­born­inga. Þann vafa ber að túlka þeim í hag með vís­an til þeirr­ar meg­in­reglu sem kem­ur fram í 108. gr. laga um meðferð saka­mála nr. 88/​2008.

Þó ber að taka fram að í lok 1. mgr. 2. gr. kem­ur fram að hafi refsi­á­kvæði laga fallið úr gildi af ástæðum, sem ekki bera vitni um breytt mat lög­gjaf­ans á refs­inæmi verknaðar, skal dæma eft­ir lög­um þeim, sem í gildi voru, þegar brot var framið. Þetta kem­ur ekki fram í til­kynn­ingu lög­reglu.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert