Túlka vafann Inga í hag

Undirbúningskjörbréfanefnd rannsökuðu málið á síðasta ári.
Undirbúningskjörbréfanefnd rannsökuðu málið á síðasta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þar sem ný kosningalög fjalla ekki með jafn skýrum hætti um skyldu innsiglunar kjörgagna, eins og áður var, komst lögreglustjórinn á Vesturlandi að þeirri niðurstöðu að rannsókn á hendur fyrr­ver­andi for­manns yfir­kjör­stjórn­ar væri ekki líkleg til sakfellingar. Því var málið fellt niður.

Þetta segir í tilkynningu á vefsíðu lögreglunnar.

Eins og frægt er hefur lögreglan á Vesturlandi haft til rannsóknar brot á kosningalögum vegna meðhöndlunar atkvæða Norðvesturkjördæmis  í kjölfar síðustu Alþingiskosninga.

Eftir að telja þurfti atkvæðin aftur komu í ljós ýmsir vankantar á starfsháttum kjörstjórnar sem voru síðar teknir fyrir, m.a. af Undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar. Þurftu þingmenn meðal annars að kjósa um lögmæti kosninganna í ljósi misferlanna.

Ingi Tryggvason, sem var formaður yfirkjörstjórnar þegar atkvæðin voru talin, var sektaður um 250 þúsund krónur vegna málsins og aðrir í kjörstjórn fengu 150 þúsund króna sekt. Hann hefur neitað að borga hingað til.

Skyldan ekki jafn skýr

Í dag var aftur á móti fallið frá rannsókninni og er ástæðan ný kosningalög nr. 112/2021 sem tóku gildi þann 1. janúar á þessu ári.

„Að mati lögreglustjóra er ekki fjallað með jafn skýrum hætti um skyldu til innsiglunar kjörgagna líkt og var gert í þágildandi kosningalögum nr. 24/2000. Ekki er með beinum hætti fjallað um skyldu til innsiglunar kjörgagna að lokinni talningu í gildandi kosningalögum nr. 112/2021,“ segir í tilkynningu lögreglu.

Kemur þar jafnframt fram að í „1. mgr. 2. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 kemur fram að hafi refsilöggjöf breyst eftir að verknaður var framin, eigi að dæma eftir nýju lögunum. Það á bæði við um refsinæmi verknaðar og refsingu og á það við í þessu tilfelli.“

Því telur lögreglustjóri vafa vera til staðar um refsinæmi ætlaðs brots sakborninga. Þann vafa ber að túlka þeim í hag með vísan til þeirrar meginreglu sem kemur fram í 108. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Þó ber að taka fram að í lok 1. mgr. 2. gr. kemur fram að hafi refsiákvæði laga fallið úr gildi af ástæðum, sem ekki bera vitni um breytt mat löggjafans á refsinæmi verknaðar, skal dæma eftir lögum þeim, sem í gildi voru, þegar brot var framið. Þetta kemur ekki fram í tilkynningu lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert