Senda hjálpartæki til barna og ungmenna á flótta

Sjúkratryggingar Íslands.
Sjúkratryggingar Íslands.

Sjúkratryggingar Íslands hafa sent fjölbreytt hjálpartæki áleiðis til Póllands. Tækin eru ætluð börnum og ungmennum sem eru á flótta frá Úkraínu og þurfa á slíkum búnaði að halda vegna ýmis konar fötlunar.

Um 800 börn og ungmenni sem búa á heimili fyrir munaðarlaus börn í Úkraínu eru á leið þaðan til Póllands þar sem þau munu fá nauðsynlega endurhæfingarmeðferð á endurhæfingarstöð í borginni Poznan, að því er kemur fram í tilkynningu frá Sjúkratryggingum.

„Mikill skortur er á nauðsynlegum hjálpartækjum og ljóst að meðferð myndi ekki skila tilætluðum árangri nema úr því yrði bætt. Sjúkratryggingum barst beiðni um að aðstoða við að útvega slíkan búnað. Tveimur dögum síðar voru 9 vörubretti af margvíslegum hjálpartækjum, svo sem  hjólastólum, göngugrindum, standgrindum og vinnustólum, send áleiðis til Póllands en auk Sjúkratrygginga gáfu Endurhæfing-Þekkingarsetur og Æfingarstöð SLF búnað. Um er að ræða búnað sem ekki nýtist lengur hérlendis en er í ágætu lagi,“ segir í tilkynningunni

Fram kemur að Félag Úkraínumanna á Íslandi muni annast flutning búnaðarins til Lublin í Póllandi. Þar taka Rotary-samtök  borgarinnar á móti búnaðinum og tryggja að hann komist á áfangastað í Poznan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert