Slökkt á stærsta ljósbogaofninum

Elkem rekur kísilmálmverksmiðjuna. Hún hóf starfsemi árið 1979 eftir stormasaman …
Elkem rekur kísilmálmverksmiðjuna. Hún hóf starfsemi árið 1979 eftir stormasaman undirbúning. mbl.is/Sigurður Bogi

Verulega hefur verið dregið úr framleiðslu í kísilmálmverksmiðju Elkem á Grundartanga. Slökkt hefur verið á einum ljósbogaofni, þeim stærsta af þremur. Ástæðan er skerðing Landsvirkjunar á afhendingu rafmagns til fyrirtækisins en það er gert í formi endurkaupa á þegar seldri orku.

Landsvirkjun tilkynnti undir lok síðustu viku að vegna versnandi vatnsbúskapar á hálendinu, einkum í Þórisvatni, hafi þurft að grípa til allra tilrækra úrræða. Meðal annars hafi verið virkjuð ákvæði í samningum við stórnotendur um endurkaup á forgangsorku. Það felur í sér að orka sem fyrirtækið hefur keypt er keypt til baka gegn gjaldi sem tilgreint er í samningum. Viðskiptavinum er bætt tapið að einhverju leyti með skaðabótum í formi greiðslna sem nema margföldu orkuverði. Síðast varð Elkem fyrir skerðingu á afhendingu raforku á árinu 2014. Þá voru aðstæður í vatnsbúskap svipaðar og nú og tilkynnti Landsvirkjun um skerðingar til stórnotenda og hitaveitna á köldum svæðum undir lok febrúar. Skerðingarnar stóðu þar til í byrjun maí og ástandið á hálendinu tók að lagast.

Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem.
Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem. Ljósmynd/Aðsend

Reynt að vernda starfsfólk

Þetta úrræði er aðeins í samningum við eitt fyrirtæki og kom fram í frétt Morgunblaðsins fyrir helgi að endurkaupin gætu numið um 40 gígawattstundum. Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem Ísland, staðfestir að skerðingarnar eigi við kísilmálmverksmiðjuna á Grundartanga. Hún segir að skerðingin sé byrjuð að hafa áhrif á starfsemina og muni líklega gera það fram eftir aprílmánuði en tekur fram að það fari eftir vatnsstöðunni hjá Landsvirkjun. „Þetta kemur illa við okkur, eins og alla sem lent hafa í slíku, en við erum að bregðast við eins vel og við getum.“ Spurð um áhrif á starfsfólk segir Álfheiður að reynt sé að vernda það eins vel og hægt er.

Framleiðslutap ekki ljóst

Rekstur verksmiðjunnar á Grundartanga hófst á árinu 1979. Það er hluti af Elkem-samstæðunni í Noregi en eigandi hennar er kínverska fyrirtækið Bluestar.

Þrír ljósbogaofnar eru í verksmiðjunni á Grundartanga, sá nýjasti var tekinn í notkun árið 1999. Vegna aðgerða Landsvirkjunar hefur stærsti ofninn verið tekinn úr rekstri tímabundið. Framleiðslugeta málmbræðsluofna verksmiðjunnar er um 120 þúsund tonn á ári. Ekki er gefið upp hversu mikið framleiðslan dregst saman vegna skerðingar á orkuafhendingu, forstjórinn segir að það sé enn ekki ljóst og fari eftir þróuninni á hálendinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert