Umferðartafir aukast áður en rofar til

Það er ljóst að umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu munu aukast á næstu árum, áður en rofar til með tilkomu Borgarlínu, sem er nýtt hraðvagnakerfi og býður upp á gæða almenningssamgöngur.

Þegar liggur fyrir að hlutar verksins hafa tafist miðað við upphaflegar áætlanir og óvíst er hvenær lagaheimild fyrir gjaldtöku á umferð verður heimiluð af Alþingi.

Samkvæmt samgöngusáttmála ríkis- og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er stefnt að því að innheimta sextíu milljarða af ökumönnum fram til ársins 2033. Stefnt var að því að hefja gjaldtöku á þessu ári en líkur er á að því seinki fram á næsta ár.

Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna ohf. segir það álit fremstu sérfræðinga, bæði innlendra og erlendra, að Borgarlína muni verða vænlegur valkostur fyrir almenning á höfuðborgarsvæðinu. Með tilkomu hennar vonast menn til að dragi úr umferðartöfum á höfuðborgarsvæðinu. Hann vonast eftir skilningi og þolinmæði ökumanna næstu árin því ljóst sé að tafir munu aukast í umferðinni.

Davíð er gestur Dagmála í dag og það er kjörið að horfa eða hlusta á þennan þátt í umferðartöfunum síðdegis á höfuðborgarsvæðinu. Hressilegur þáttur um samgöngur í nútið og framtíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert