Drífa sér sig knúna til að svara Ragnari

Drífa Snædal svarar Ragnari í nokkrum málum sem hann hefur …
Drífa Snædal svarar Ragnari í nokkrum málum sem hann hefur gagnrýnt.

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambandsins (ASÍ), segist ekki lengur geta setið þegjandi hjá á meðan Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, kemur ítrekað fram opinberlega fram og málar ASÍ upp með neikvæðum hætti. Þetta kemur fram í grein sem hún ritaði og birtist á Vísir.is.

Drífa segir málefnalegan ágreining oft óljósan og ekki alltaf hafa verið borinn formlega á borð innan ASÍ. Hún vill þó svara nokkrum málum er komið hafa frá Ragnari.

Hann hafi oft lagt gott til og fengið sín stefnumál í gegn, en það sé auðvitað ekki algilt, fremur en eigi við um aðra.

„Ragnar talar iðulega á þann veg að segi hann eitthvað í krafti embættis síns sem formaður stærsta aðildarfélagsins eigi það einfaldlega að gilda. Hann hefur kallað eftir einföldu meirihlutaræði og farið fram á atkvæðagreiðslur um tillögur sem fólk hefur hreinlega ekki upplýsingar til að taka ákvarðanir um. Hann hefur viljað afgreiða erindi til miðstjórnar með ólíkum hætti eftir því frá hverjum þau koma og kennir lýðræðisskorti um þegar hann fær ekki sínu fram,“ segir Drífa meðal annars í greininni.

Ragnar sagði meðal annars í viðtali við mbl.is um miðjan febrúar að það væri fullreynt af hans hálfu að reyna að vinna á vettvangi ASÍ að uppbyggilegum málum. Eitraður kúltúr þrifist innan sambandsins sem aldrei væri hægt að losna við. Hann hefði margoft orðið vitni af þöggun og svívirðilegri framkomu í garð þeirra sem væri á annarri skoðun en aðallinn sem stýrði hreyfingunni. Þá sagði Ragnar að Drífa væri hluti af vandamálinu.

Ragnar skeri sig úr 

Drífa segir formenn VR hafa stundum talað um að ganga úr ASÍ og segja sig þannig frá samstarfi heildarsamtaka. Ragnar skeri sig þó úr þar sem hann hafi hótað úrsögn ofar en hún hafi tölu á. Þess á milli hóti hann að beita valdi sínu til að reyna að skerða tekjustofna ASÍ. Þær hótanir hafi gjarnan komið í kjölfar þess að Ragnar sé ósáttur við stefnu eða ákvarðanatöku í ákveðnum málum.

Ragnar hafi til að mynda viljað veikja samtryggingarhluta lífeyrissjóðakerfisins og styrkja séreignahlutann, þar sem lífeyririnn væri meira í ætt við bankabók. Meirihlutinn innan ASÍ hafi hins vegar viljað standa vörð um upprunalegt hlutverk lífeyrissjóðanna þannig þeir séu samtryggingasjóðir vinnandi fólks.

Þá hafi Ragnar einnig, ásamt Vilhjálmi Birgissyni, viljað draga tímabundið úr mótframlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóði til að létta fyrirtækjum róðurinn í Covid-faraldrinum. Þegar sjónarmið þeirra hafi ekki hlotið brautargengi hafi þeir báðir rokið á dyr.

„Finnst honum nóg að viðhafa gífuryrði í blaðagreinum?“

Drífa segir þó að í gagnrýni Ragnars á lífeyrissjóðakerfið sé ýmislegt gagnlegt sem megi taka undir. Hins vegar þegar ákveðið hafi verið að efna til rökræðufundar um lífeyrismál í upphafi mánaðarins hafi Ragnar ekki viljað taka þátt í fundinum.

„Ástæðan var sú að hann móðgaðist yfir tölvupóstsamskiptum sem komu þessum fundi ekkert við. Ég spyr því: Vill hann raunverulega breyta lífeyrissjóðskerfinu og vinna skoðunum sínum fylgi, eða finnst honum nóg að viðhafa gífuryrði í blaðagreinum?“ segir Drífa.

Ekki hægt að horfa upp á fólk missa lífsviðurværið

Drífa segir Ragnar líka hafa verið ósáttan við að innan ASÍ sé vilji til að nýta tilfærslukerfin til að mæta því fólki sem nú lendi fjárhagsvandræðum vegna vaxtahækkana og ástandsins á húsnæðismarkaði. Hann vilji heldur „ráðast að rót vandans“ og stöðva okur bankanna.

„Þar höfum við talað einum rómi gegn gróðahyggjunni. Ég tel hins vegar að það sé ekki hægt að horfa á fólk missa lífsviðurværið og jafnvel heimili sín á meðan við reynum að knýja bankana til stefnubreytingar.“

Misráðið að nota árið í innanbúðarátök

Hvað varðar SALEK, þá segir Drífa það hreinan uppspuna að halda því fram að ASÍ hafi leynt og ljóst unnið að SALEK frá árinu 2016.

Drífa endar grein sína á því að benda á að hreyfingin þurfi að lifa allar þær persónur og leikendur sem nú séu á sviðinu. Sagan hafi sýnt að verkalýðshreyfingin sé sterkust þegar hún standi saman. Hún telur misráðið að taka þetta ár, þar sem kjarasamningar eru lausir og teknar verða veigamiklar ákvarðanir, í harðvítug innanbúðarátök.

„En standi vilji til þess mun ég tala fyrir ASÍ sem sterkum og öflugum heildarsamtökum. Ég mun tala fyrir samstöðu og í þágu þeirra hagsmuna sem við sannanlega eigum sameiginlega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert