Stjórn Eflingar hefur samþykkt að fá lögfræðing til að framkvæma sérstaka úttekt á viðskiptum Eflingar við Andra Sigurðsson, hönnuð og félaga í Sósíalistaflokknum, um gerð nýrrar vefsíðu fyrir félagið.
Andri fékk rúmar 20 milljónir greiddar fyrir verkið. Viðskiptin voru gerð í stjórnartíð Sólveigar Önnu Jónsdóttur.
„Ég vil afgreiða málið. Ég er einungis að skoða allt það sem ég á að gera sem starfandi formaður,“ segir Agnieszka Ewa Ziólkowska, starfandi formaður Eflingar, í samtali við mbl.is.
Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Eflingar, hefur sagt að Deloitte, sem sér um endurskoðun ársreikninga Eflingar, hafi ekki gert athugasemdir við viðskiptin.
Bæði Viðar og Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrverandi formaður Eflingar, hafa harðlega gagnrýnt stjórnarhætti Agnieszku. Hún segist einungis vera sinna starfinu sínu.
„Í dag samþykkti formaðurinn ásamt stjórn Eflingar að félagið láti lögfræðing framkvæma sérstaka lögfræðiúttekt á kostnað félagsins þar sem enn verði reynt að grafa upp eitthvað sem gagnast gæti í árásum hennar á mig,“ segir Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Eflingar, á Facebook-síðu sinni.
„Hún getur ekki virt grundvallarreglur lýðræðisins og viðurkennt tap; nei, þess í stað neitar hún að víkja úr formannsstól og notar síðustu vikurnar sem hún hefur gefið sjálfri sér við völd til að halda áfram að reyna að ata mig og samstarfsfólk mitt aur.“
Agnieszka segist ekki fylgjast með umræðunni á Facebook þar sem hún verði fyrir stöðugum árásum fyrir það að vinna vinnuna sína.
Hún segist ekki skilja þessar árásir þar sem hún sé einungis sinna skyldum sínum sem starfandi formaður og hafnar því að hún sé að reyna grafa upp eitthvað til að nota gegn Viðari og Sólveigu - eins og þau hafa sakað hana um.