Guðni Einarsson
Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að takmarka samskipti, samstarf og fundi með fulltrúum rússneskra stjórnvalda, hvort sem er í tvíhliða, svæðisbundnu eða marghliða samstarfi, vegna innrásar Rússlands í Úkraínu. Náið samráð er haft um þetta við helstu samstarfs- og bandalagsríki Íslands, samkvæmt frétt stjórnarráðsins. Auk þess tekur Ísland fullan þátt í víðtækum þvingunaraðgerðum gagnvart Rússum.
Rússland hefur verið útilokað tímabundið frá þátttöku í fjölmörgum alþjóðastofnunum sem Ísland á aðild að. Rússland fer nú með formennsku í Norðurskautsráðinu en hin aðildarríkin gáfu út yfirlýsingu 3. mars og fordæmdu tilefnislausa innrás Rússlands í Úkraínu. „Í ljósi grófra brota Rússlands á alþjóðalögum munu fulltrúar ríkjanna ekki ferðast til Rússlands á fundi Norðurskautsráðsins. Þá verður gert tímabundið hlé á þátttöku í öllum fundum ráðsins og undirstofnana þess,“ segir í fréttinni. Einnig hefur verið ákveðið að meina Rússlandi þátttöku tímabundið í Evrópuráðinu, Eystrasaltsráðinu, Barentsráðinu og Norðlægu víddinni.