Mikill skortur á legurýmum og mannskap

Már Kristjánsson, forstöðumaður Lyflækninga og bráðaþjónustu Landspítalans.
Már Kristjánsson, forstöðumaður Lyflækninga og bráðaþjónustu Landspítalans. mbl.is/Ásdís

Núna eru 82 sjúklingar með Covid smit á Landspítalanum og þar af 7 lausir úr einangrun sem bíða flutnings. Mikið álag var síðasta sólarhring, en þá voru 19 sjúklingar lagðir inn. Landspítalinn er kominn að þanmörkum og Covid sjúklingar liggja á 15 legudeildum, 6 á gjörgæsludeildum og 4 eru í öndunarvél. Einn eldri sjúklingur lést af völdum Covid á síðasta sólarhring.

Sjúklingar á göngum bráðamóttöku

Már Kristjánsson forstöðumaður, lyflækninga og bráðaþjónustu Landspítalans segir í samtali við mbl.is að flæði sjúklinga sé með allra þyngsta móti og mikill skortur sé á legurýmum og mannskap. „Við erum að gera okkar besta og reyna að nýta vinnuaflið sem best í að greiða fyrir flæði sjúklinga hérna á spítalanum, til að tryggja sem mesta hagræðingu í erfiðri stöðu. Margir sjúklingar er nú á göngum bráðamóttökunnar og það hafa verið yfirlagnir á flestar legudeildir spítalans, þar með talið öldrunardeildum. Við erum í mjög þröngri stöðu til að sinna verkefnum sem ekki geta beðið.“

Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

Alltaf legið fyrir að ástandið yrði slæmt

Már segir að þótt margir séu að fá væg einkenni veirunnar, þá sé fólk að veikjast mjög misjafnlega mikið og sumir verði mjög veikir og bætir við að í dag hafi eitt barn og einn fullorðinn einstaklingur verið lagðir inn á gjörgæsludeildina. „Þetta hefur legið fyrir allan tímann, að þegar veikindin verða svona mikil að vöxtum þá verður ástandið slæmt.“

 Hann segir að þrátt fyrir að mikið sé af góðum úrræðum sem verið sé að nota séu nokkrir þættir að spila saman núna sem geri stöðuna sérstaklega erfiða. „Við, sem kerfi, höfum kannski ekki hugsað öll úrræðin til fulls og þótt við séum með talsvert af dvalarheimilum, þá hefur fjöldi aldraðra aukist mikið í samfélaginu og þegar svona faraldur bætist ofan á, þá stendur kerfið ekki undir þessu.“

Rúmlega 8.000 smitaðir

Núna eru rúmlega 8.000 Íslendingar taldir smitaðir af veirunni og Már segir að sem betur fer hafi talan lækkað, því fjöldinn hefur verið milli 10-12 þúsund, sem þýðir að einn af hverjum þrjátíu hefur verið smitaður á hverjum tímapunkti og það hefur gríðarlega mikil áhrif á allt þjóðfélagið. „Svo eru eldri borgarar sem hafa getað verið heima að missa færni, stundum vegna veirunnar, og þá skapast líka ófyrirséð ástand. Það þarf að skoða heildarstöðuna og hvernig er hægt að bregðast við þeim áskorunum sem við erum að sjá bæði á öldrunar- og endurhæfingarstofnunum í kringum okkur.“

Eðli faraldra að það dregur úr nýgengi smita

Már segir það með ólíkindum hvað starfsfólk spítalans sé að standa sig vel, við mjög erfiðar aðstæður og mikið álag. „Það er svona út um allan heim, og ekki sjálfgefið að halda í fólk við þessar aðstæður.“

Hann segir þó að vonandi sé ástandið að lagast. „Það er eðli faraldra að það dregur úr nýgenginu, svo nýjustu tölur eru vonandi fyrirboði þess að það sé að draga úr þessu. Við vonumst til að eftir tvær vikur fari ástandið að lagast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert