Covid-19 sjúklingar geta fengið 10 töflur af Parkódín í apóteki án lyfjaávísunar.
Lyfjastofnun, í samstarfi við heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, grípur til þessara ráðstafana vegna mikilla Covid-19 veikinda í þjóðfélaginu og álags á heilbrigðiskerfið, en læknar heilsugæslunnar hafa ávísað lyfinu til að slá á hósta, sem er eitt einkenna Covid-19.
Parkódín inniheldur tvær mismunandi tegundir verkjalyfja sem kallast parasetamól og kódein. Kódein tilheyrir flokki lyfja sem kallast ópíóíð verkjalyf og getur kódein valdið ávanabindingu ef lyfið er tekið til lengri tíma. Lyf sem innihalda kódein, þ.á.m. Parkódín, voru tekin úr lausasölu þann 1. október 2005 og gerð lyfseðilsskyld samkvæmt tilkynningu á vef landlæknis.
Framvísa þarf vottorði úr Heilsuveru sem sýnir staðfest Covid-19 smit. Vottorðið má ekki vera eldra en mánaðargamalt. Hægt verður að kaupa lyfið í lausasölu til 18. apríl næstkomandi.