Gert er ráð fyrir að húsnæði fyrir ósakhæfa einstaklinga verði fullbyggt í lok árs 2023 eða byrjun árs 2024. Framkvæmdasýsla ríkisins hefur unnið að frumathugun vegna byggingar fyrir starfsemina í Reykjanesbæ og er nú í samtali við skipulagsyfirvöld um nákvæma staðsetningu byggingarinnar. Gert er ráð fyrir sjö íbúðum eða heimilum í kjarna, að sögn félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins.
„Þessar íbúðir eru byggðar eins og venjuleg heimili fyrir einstaklinga sem þurfa sérstakan stuðning. Byggingin verður þó hönnuð og byggð þannig að alls öryggis sé gætt bæði inni á heimilinu og út á við. Leitað hefur verið í reynslu nágrannaþjóðanna og um hvernig best er hægt að haga starfsemi af þessu tagi. Húsnæðið verður ekki ólíkt öðrum byggingum sem áætlaðar eru þar sem starfsemin mun rísa og mun því ekki breyta ásýnd byggðar,“ segir í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur unnið að því undanfarin misseri að móta heildstæða þjónustu fyrir ósakhæfa einstaklinga á Íslandi. Það er gert í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist og ábendingar frá umboðsmanni Alþingis um hvað megi betur fara í þjónustu við þennan hóp.