Töluverðir möguleikar eru til að auka orkuöflun í landinu, til að mæta þörfum vegna orkuskipta í samgöngum og aukinni eftirspurn eftir grænni orku. Ekki eru þó mörg verkefni að skila orku á allra næstu árum því það tekur tíma að undirbúa og byggja virkjanir, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Einu nýju virkjanirnar sem komast í gagnið á þessu og næsta ári eru Þverárvirkjun, sem er smávirkjun í Vopnafirði, og stækkun Reykjanesvirkjunar. Ekki er von til að aðrar virkjanir, sem eitthvað kveður að, komist í gagnið fyrr en eftir fjögur til tíu ár.
Stórtækustu áformin eru í vindorkunni. Stóru vindorkufyrirtækin segjast geta reist fjóra vindorkugarða, hvort félag, með 500-600 MW í uppsettu afli á næstu 4-5 árum. Er það meira en felst í áformum Landsvirkjunar fyrir næstu 5-10 ár.