Drífa geti ekki valið sér bakland

Vilhjálmur segir að hann muni ekki styðja Drífu fari hún …
Vilhjálmur segir að hann muni ekki styðja Drífu fari hún aftur fram í haust. Samsett mynd

„Tíminn mun leiða það í ljós hver mun bjóða sig fram til forseta Alþýðusamband Íslands. En í mínum huga hefur Drífa misst klefann, það er algjörlega ljóst.“

Þetta segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, um Drífu Snædal, forseta ASÍ, í samtali við mbl.is.

Hafi viljað hlífa lífeyrissjóðunum 

Vilhjálmur ritaði pistil á Vísi í gær þar sem hann sakar Drífu um að sleppa ýmsum staðreyndum í pistli sem hún ritaði sama dag. Hann telur hana vilja koma höggi á sig til að hafa áhrif á formannskjör hans í Starfsgreinasambandi Íslands sem hefst í næstu viku.

Í samtali við mbl.is segir Vilhjálmur að í upphafi krónuveirufaraldursins hafi myndast ákall frá Samtökum atvinnulífsins og stjórnvöldum um að verklýðshreyfingin myndi frysta launahækkanir sem áttu að koma til framkvæmda 1. apríl 2020. 

Það hafi honum og fleirum fundist fráleitt að gera. Því hafi verið lögð fram tillaga um að lækka tímabundið mótframlag atvinnurekenda til lífeyrissjóða um 3,5% gegn því að stjórnvöld myndu setja þak á neysluvísitöluna til að verja heimilin og leigjendur gegn verðbólguskoti og einnig að sett yrði á verðlagsfrysting af hálfu verslunar og þjónustu til að fyrirbyggja mikla kostnaðarhækkun á matvöru og annarri nauðsynjavöru.

Þá segir Vilhjálmur Drífu frekar hafa verið tilbúna að fórna launahækkunum launafólks.

Verulegir samskiptaörðuleikar

Vilhjálmur segir ýmislegt hafa gengið á síðan Drífa tók við embættinu.

Fljótlega eftir að hún hafi tekið við sem forseti hafi upplýsingaflæði orðið lítið og samskiptaörðuleikar verulegir. Hann segir að hann ásamt Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR, og Sólveigu Önnu Jónsdóttur, þáverandi og aftur verðandi formanni Eflingar, hafi átt fundi með Drífu til að reyna bæta ástandið en það hafi ekki tekist. 

Þá séu fleiri mál þar sem þau hafi greint á. „Það eru lífeyrismálin, starfskjaralögin sem átti að leggja fram og grænbókarvinnan sem stjórnvöld komu á og stóð til að leggja sem er í grunnin bara gamla SALEK-hugmyndin,“ segir Vilhjálmur.

„Hvaða bakland er hún að tala um?“

Vilhjálmur segir Drífu vinna mikið eina og bakland hennar ekki vera sterkt.

„Hún talar oft um að hún hafi talað við baklandið sitt en Ragnar hefur talað um það í pistlum sínum að hann vill fá að vita hvaða bakland það er, því að það er aldrei haft samband við hann þegar hún er að tala um baklandið sitt. Hvaða bakland er hún að tala um? Ekki hefur hún talað við mig.

Baklandið er auðvitað öll aðildarfélög ASÍ, það er baklandið. Þú getur ekki bara valið þér einhverja örfráa aðila til að kalla þitt eigið bakland. Baklandið verður að vera sterkt og það verða að vera öll aðildarfélög ASÍ.“

Ekki ein á báti

Hann segir hana þó ekki eina á báti. Það séu nokkur stéttarfélög sem styðji hana og hún leiti mikið til. Það sé þó alveg ljóst að stærstu félögin styðji hana ekki.

„Hún nýtur ekki stuðnings stærstu stéttarfélaganna innan Alþýðusambandsins, hvorki VR né Eflingar. Hún virðist heldur ekki njóta trausts innan raða iðnaðarmanna ef marka má fréttir hvað það varðar og svo eru nokkur önnur stéttarfélög sem hafa lýst því yfir að þau styðji hana ekki.“

Þrátt fyrir að hún njóti ekki stuðnings stærstu aðildarfélaganna segir Vilhjálmur að ekki hafi komið til tals að krefja hana afsagnar, enda sé hún lýðræðislega kjörin fram í október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert