Fastar á Spáni í heila viku eftir hjólaferð

Flugvél spænska flugfélagsins Vueling býr sig til flugs. Slíkt hefur …
Flugvél spænska flugfélagsins Vueling býr sig til flugs. Slíkt hefur ekki verið raunin hingað til þessa viku, í tilviki hópsins. Samsett mynd

Hópur 15 íslenskra hjólreiðakvenna hefur verið strandaglópur á Spáni, nærri Barcelona, í tæpa viku eftir að flugferð hópsins með spænska flugfélaginu Vueling hefur verið frestað daglega.

„Dagarnir hafa farið í að pakka, tékka sig út, bíða, tékka inn aftur, leita annarra leiða til að komast heim, fá endurbókun og bíða,“ segir Ásta Björg Ingadóttir, ein kvennanna, en flugfélagið ber fyrir sig að ekki sé hægt að fljúga sökum veðurs.

Hópurinn ætlaði í vikulanga hjólreiðaferð. Ferðin reyndist mun lengri.
Hópurinn ætlaði í vikulanga hjólreiðaferð. Ferðin reyndist mun lengri. Ljósmynd/Aðsend

Ásta segir að þær hafi þó grunað snemma að ekki væri allt með felldu, enda sé veðrið ekki að stoppa önnur flugfélög frá því að lenda á Keflavíkurflugvelli.

„Vueling þykist ætla að fljúga á hverjum degi en aflýsa svo eins seint og mögulegt er.“

Möguleikar hópsins til að endurbóka með öðrum hafi því verið litlir sem engir.

„Love at first flight“

Konurnar dvöldu fyrst á hóteli nálægt flugvellinum. Ásta segir að illa hafi gengið að ná í flugfélagið. Félagið svaraði þeim varla í síma, en fyrir tilviljunarsakir var starfsfólk þess á hótelinu.

„Í gær var síðan ráðstefna á vegum Vueling á þessu sama hóteli undir kaldhæðnislegu yfirskriftinni „Love at first flight“,“ segir Ásta.

Þær leituðu því ráða hjá starfsfólki flugfélagsins sem sótti ráðstefnuna. Í kjölfarið hafi komið rúta til að sækja þau án þess að nokkur ástæða væri gefin, nema sú að verið væri að „smala öllum á eitt hótel“.

„Í gær var síðan ráðstefna á vegum Vueling á þessu …
„Í gær var síðan ráðstefna á vegum Vueling á þessu sama hóteli undir kaldhæðnislegu yfirskriftinni „Love at first flight“,“ segir Ásta. Ljósmynd/Aðsend

„Okkur var síðan skutlað í tæplega klukkutíma lengst út í sveit á verulega ósmekklegt hótel.“

Enginn annar en hópurinn þeirra hafi síðan reynst vera á hótelinu. „Það var ekki verið að smala neinum neitt, bara okkur í burtu.“

Loks á leið heim

Spurð út í framhaldið segir hún að engin þeirra hafi ætlað sér að gista á hótelinu ósmekklega þegar þau komu þangað í morgun.

„Jú, þetta er auðvitað heil vika í vinnutap og flestar með börn,“ segir Ásta, spurð hvort hópurinn hafi orðið fyrir einhverju fjárhagslegu tjóni.

Hópurinn er nú loks á leið heim.
Hópurinn er nú loks á leið heim. Ljósmynd/Aðsend

Ferðaskrifstofan hér heima hafi þó loks náð að bóka þau í nýtt flug, sem þau fljúga með í kvöld.

„Við erum loksins komin á völlinn,“ segir Ásta og það leynir sér ekki í röddinni að hún er spennt að komast heim í faðm fjölskyldunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert