Kona á sjötugsaldri sem var með Covid-19 lést á spítala í gær, að því er fram kemur á heimasíðu Landspítala.
Alls hafa orðið 91 dauðsfall í faraldrinum hér á landi.
70 sjúklingar liggja á spítalanum með Covid-19. Fjórir þeirra eru á gjörgæslu og þrír þeirra í öndunarvél.
Meðalaldur innlagðra er 74 ár.
Alls er 81 einstaklingur á spítala á landsvísu með Covid-19, þar af sex á gjörgæslu.
1.879 kórónuveirusmit greindust innanlands í gær en ríflega 4.000 sýni voru tekin.
46% Íslendinga hafa greinst með Covid-19 frá upphafi faraldurs og hafa 2,2% greinst oftar en einu sinni.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði fyrir um viku síðan að hlutfall jákvæðra hraðprófa sem notuð eru til staðfestingar á smiti væri svipað og hlutfall jákvæðra PCR sýna áður, en vegna nokkuð lakara næmis hraðprófanna væri það vísbending um að útbreiðslan væri líklega meiri en áður.