Markar upphaf á nýju tímabili

Frá eldgosinu í Geldingadölum.
Frá eldgosinu í Geldingadölum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eitt ár verður liðið frá því eldgos hófst í Geldingadal í Fagradalsfjalli á Reykjanesi næsta laugardag. Gosið vakti mikla athygli hérlendis sem erlendis enda var það mjög aðgengilegt fyrir almenna borgara. Gosið reyndist í meðallagi stórt en ekki hafði gosið á Reykjanesskaganum frá því á tímum Snorra Sturlusonar.

„Stóru tíðindin varðandi þennan atburð eru að yfir höfuð sé farið að gjósa á Reykjanesskaganum eftir tæplega átta hundruð ára hlé. Þetta markar því upphaf að nýju tímabili. Á næstu hundrað árum gæti kannski gosið að meðaltali á 20-25 ára fresti. Það getur komið í hrinum og einnig geta komið tímabil í 50 eða 100 ár með engu gosi. Þannig var það á gostímabilinu 800-1240,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, í samtali við Morgunblaðið. Stærðargráðan á næsta gosi gæti orðið svipuð þótt vitaskuld sé ekki hægt að fullyrða um slíkt.

„Ekkert er hægt að útiloka varðandi stærðir en miðað við hvernig skaginn hefur hegðað sér þá eru gos af svipaðri stærðargráðu og þetta líklegust. En einnig geta komið aflmeiri gos sem standa í styttri tíma.“

Atburðarásinni ekki lokið

Eldgosið í Fagradalsfjalli var afllítið en ekki lítið á heildina litið.

„Gosið stóð í sex mánuði og því lauk í september en í desember var formlega tilkynnt um goslok. Þótt gosið væri alltaf afllítið var það ekki lítið á heildina litið og endaði sem meðalstórt gos. Atburðarásin virðist ekki vera alveg búin þar sem enn mótar fyrir landrisi. Eftir að gosið hætti fór landið að rísa aftur og í desember fór af stað atburðarás sem var svipuð þeirri sem átti sér stað í aðdraganda gossins. Þá var kvika í jarðskorpunni en það hætti áður en það náði upp á yfirborðið og ekki varð gos. Vísbendingar eru um að enn sé landris en ekki eins mikið og var. Ekki er því vitað hvort við sjáum fyrir endann á þessari atburðarás. Það verður bara að koma í ljós en vel er fylgst með.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert