Mörg andlát eldra fólks undanfarið

mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Andlát hafa verið tíð á dvalar- og hjúkrunarheimilum að undanförnu, eins og sést af andlátstilkynningum. Á sumum þessara heimila hafa komið upp Covid-19-smit. Pálmi V. Jónsson, yfirlæknir á öldrunarlækningadeild Landspítala og prófessor í öldrunarlækningum við Háskóla Íslands, var spurður hvort andlát eldra fólks hafi verið óvenjutíð undanfarið og hvort rekja megi mörg þeirra til Covid-19-sýkinga?

„Ég er ekki með nákvæma tölfræði við höndina en það virðist vera aukin tíðni andláta þessa dagana. Ég hef heldur ekki upplýsingar um dánarorsakir,“ segir Pálmi í skriflegu svari við fyrirspurn Morgunblaðsins.

„Ég tel mikil líkindi fyrir því að kórónuveiran sé nú að verki og valdi þessari aukningu í ár. Þá er einnig nokkuð líklegt, að mínu mati, að dánartíðnin sé heldur meiri en í meðalári, þar sem sóttvarnir hafa verið miklar í tvö ár og fólk haldið sér til hlés. Nú er hins vegar dregið úr sóttvörnum almennt talað og smit í samfélaginu í hæstu hæðum. Þá er það svo að bæði gestir og gangandi og einnig starfsfólk á sjúkrastofnunum veikist. Öllum þessu sýkingum fylgir ákveðinn tími í byrjun veikinda, þar sem fólk er talsvert smitandi en einkennalaust eða lítið og sá tími getur verið hættulegur viðkvæmu fólki.

Þetta skýrist að sjálfsögðu þegar frá líður en ekki er ólíklegt að bæði veikindi og dánartíðni hafi hliðrast til. Þá mun einnig sjást hvort heildartíðni per ár að meðaltali eða per fimm ár verði umfram það sem búast má við út frá spálíkönum.“

Pálmi tók það fram að það séu ævinlega ákveðnar sveiflur í dánartíðni, en þegar heilt ár er skoðað, þá sé fjöldi þeirra sem fellur frá æði svipaður frá ári til árs.

„Í gegnum árin er aukning í veikindum og dánartíðni að jafnaði annars vegar í byrjun vetrar og hins vegar um vetrarlok. Almennt talað eru tengingar andláta við faraldra sem ganga, hvort heldur það er t.d. influenza, RS-veira eða humanmetapneumoveira sem valda öndunarfærasýkingum eða t.d. noroveira, sem veldur meltingarfærasýkingum. Það sem gerist er að þeir sem eru viðkvæmastir á hverjum tíma geta fallið frá af þessum orsökum. Þannig verða þessar sýkingar oft kornið sem fyllir mælinn hjá þeim sem bera langvinna sjúkdóma, svo sem Alzheimer-sjúkdóm, lokastigskrabbamein, eða hjarta- eða öndunarbilun, svo að dæmi sé nefnd.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert