„Þetta er prinsippafstaða. Ég óttast ekkert að fara í þessa yfirheyrslu. Ég hef ekkert að fela í þessu máli enda viðurkennir lögreglan að hún hafi ekkert í höndunum sem bendir til þess að það hafi yfir höfuð verið glæpur framinn, hvað þá að ég hafi framið einhvern glæp,“ segir Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður hjá Stundinni.
Landsréttur vísaði í gær máli Aðalsteins gegn embætti Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, frá héraðsdómi.
Lögreglustjórinn boðaði í byrjun árs fjóra blaðamenn, þar á meðal Aðalstein, til skýrslutöku í tengslum við rannsókn á broti gegn friðhelgi einkalífsins í tengslum við fréttaflutning blaðamannanna af „skæruliðadeild Samherja“.
Áður en úrskurður Landsréttar var kunngjörður hafði Héraðsdómur Norðurlands eystra komist að þeirri niðurstöðu að skýrslutakan væri ólögmæt, þ.e. að óheimilt væri að fá Aðalstein til skýrslutöku sem sakborning.
Aðalsteinn sér fram á að kæra frávísun Landsréttar til Hæstaréttar.
„Þetta snýst bara um þetta prinsipp, að lögreglan fari ekki á eftir blaðamönnum og reyni að afhjúpa heimildir þeirra.“
Aðspurður segir Aðalsteinn að hann eigi ekki von á að lögreglan kalli hann til yfirheyrslu á meðan málið fer sinn veg innan dómskerfisins.
„Þau [lögreglan á Norðurlandi eystra] hafa sagt að það séu engir rannsóknarhagsmunir undir í því að yfirheyrslan fari fram á ákveðnum tíma svo ég á ekki von á öðru en að lögreglan sé sammála mér í því að ég fari þær leiðir í dómskerfinu og þessu réttarkerfi sem eiga að vera í boði.“
Kom þessi frávísun Landsréttar þér á óvart?
„Það kom mér á óvart að það fengist ekki efnisleg yfirferð. Eins og staðan er núna eftir þessa niðurstöðu – ef hún fær að standa – þá hefur fólk, sama hvort það séu blaðamenn eða ekki, engin tækifæri til þess að fá úr því skorið fyrir dómsstólum hvort aðgerðir lögreglunnar séu lögmætar eða ekki. Lögregla hefur þá bara einhvers konar gerræðisvald og það eiga bara allir einhvern veginn að sætta sig við það. Það kemur mér á óvart að það sé niðurstaðan,“ segir Aðalsteinn.
„Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að Hæstiréttur taki efnislega umfjöllun um þetta mál.“
Hér má finna úrskurð Landsréttar.