Ráðgert er að 15 fermetra tilraunahús úr hampsteypu rísi á suðvesturhluta landsins í sumar. Allt efnið í smáhýsinu verður náttúrulegt; trefjar úr iðnaðarhampi, kalk og vatn sem saman mynda hampsteypuna, burðarvirkið úr trégrind en engin þörf er á steypustyrktarjárni eins og í hefðbundnum steyptum vegg. Útveggir eiga að anda vel og því ætti ekki að þurfa að glíma við myglu. Sé vilji til að mála húsið er ekkert á móti því, en nota þarf vistvæna málningu sem andar.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Það er Anna Kristín Karlsdóttir arkitekt og samstarfsfólk hennar hjá Lúdika-arkitektum sem standa fyrir verkefninu. Þau hlutu í vikunni einnar milljónar króna styrk frá Hönnunarsjóði sem úthlutaði 28 styrkjum til ólíkra verkefna á sviði hönnunar og arkitektúrs og 18 ferðastyrkjum. Að þessu sinni var 25 milljónum úthlutað en alls bárust 86 umsóknir um rúmar 188 milljónir í almenna styrki.
Verkefni Lúdika kallast Biobuilding og í umsögn segir: „Tilraunarannsókn og hönnunarverkefni sem kynnir hina aldagömlu aðferð að nota iðnaðarhamp sem nútímabyggingarefni sem ræktað er hér á landi og aðlaga það staðbundnu loftslagi og aðstæðum. Fyrsta skrefið í átt að framtíð þar sem hægt er að reisa byggingu úr íslensku hráefni.“
Anna Kristín segir að hampsteypa sé sterkt efni, en í ár verður meðal annars kannað hvernig hún stenst íslenskar aðstæður. „Hún þarf að þola álag eins og veðrið hefur verið í vetur. Í tilraunahúsinu verða álagsfletir bæði með hampsteypu með náttúrulegri múrhúð eða timburklæðningu þannig að við sjáum hvernig mismunandi efni þola veðurálagið. Við höfum fulla trú á að þetta náttúrulega efni standist íslenskar aðstæður.“