Um helmingi hærri upphæð verður úthlutað úr Háskólasjóð h/f Eimskipsfélags Íslands, sem styrkt hefur doktorsnema við Háskóla Íslands, vegna breytinga á skattalegri umgjörð styrktarsjóða.
Ólíkt því sem tíðkast hefur erlendis hafa styrktarsjóðir og almannaheillafélög greitt hér fjármagnstekjuskatt síðastliðin ár, sem nemur nú 22%. Þetta hefur dregið úr getu styrktarsjóða til að styðja við uppbyggingu náms, rannsókna og nýsköpunar. Með skattalagabreytingum sem tóku gildi 1. nóvember 2021, aftur á móti, var skattbyrði þeirra létt, að því er fram kemur í tilkynningu Háskóla Íslands.
Fela nýju breytingarnar m.a. í sér að styrktarsjóðir fá nú fjármagnstekjuskatt endurgreiddan auk þess sem einstaklingar og fyrirtæki geta nú dregið frá tiltekna fjárhæð eða hlutfall framlaga til almannaheillafélaga og styrktarsjóða frá skattskyldum tekjum.
Mun Háskólasjóður h/f Eimskipafélags Íslands geta greitt 160 milljónir króna aukalega í hærri styrki til doktorsnema á næstu árum sem hefðu að óbreyttu verið greiddar í fjármagnstekjuskatt.
40 milljónir á ári munu bætast við styrkveitingu sjóðsins til næstu þriggja ára, og mun úthlutunin í ár því nema 120 milljónum króna. Má því reikna með að sjóðurinn geti styrkt fleiri doktorsnema í ár.
Háskólasjóður h/f Eimskipafélags Íslands var stofnaður árið 1964 til minningar um þá Vestur-Íslendinga sem hlut áttu að stofnun Hf. Eimskipafélags Íslands. Hefur markmið hans verið að styðja við efnilega nemendur við HÍ. Sjóðurinn hefur verið í umsjá Landsbankans frá 2005.