Búsetuúrræði í 93% nýtingu

Útlendingastofnun.
Útlendingastofnun. mbl.is/Hjörtur

Nýting búsetuúrræða hjá sveitarfélögunum sem Útlendingastofnun er með samninga við stendur nú í 93% og er heildarnýting skammtímaúrræða sem stofnun hefur yfir að ráða í komin í 75%. Þetta kemur fram í sjöundu stöðuskýrslu landamærasviðs ríkislögreglustjóra vegna stríðsátaka í Úkraínu

Heildarfjöldi í þjónustu hjá Útlendingastofnun eru 689 einstaklingar og þar af 271 einstaklingar með tengsl við Úkraínu.

Samningar langt komnir

Samningar sem snúa að búsetuúrræði fyrir flóttamenn frá Úkraínu eru sumir hverjir langt komnir að sögn Gylfa Þór Þorsteinssyni, sem stýrir aðgerðarhópi vegna komu flóttafólks frá landinu.

„Við höfum einbeitt okkur að þessu verkefni og erum að vinna í því að ganga frá samningum varðandi þessi mál. Þeir samningar eru mislangt komnir, sumir á lokasprettinum en aðrir á byrjunarreit,“ segir hann. Samningarnir geta gilt í 6 mánuði þar til fólk fær lengri búsetuúrræði.  

Margir hjálpa til

Búsetuúrræði Útlendingastofnunar eru af skornum skammti og segir Gylfi í samtali við mbl.is að margir komi að verkefninu og leggi hönd á plóg.

„Það eru mjög margir sem koma að verkefninu. Meðal annars eru almannavarnir að vinna í þessum málum, og svo Útlendingastofnun, Heilsugæslan, félagsmálaráðuneytið, menntamálaráðuneytið, fjármunaráðuneytið og sveitarfélögin. Þetta er mjög stór hópur og því töluverður fjöldi sem kemur að þessu verkefni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert