„Ég ætla mér ekki að dýpka þessar deilur. Við þurfum bara að einbeita okkur að þeim málum sem eru framundan,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, innt eftir viðbrögðum við þeim gífuryrðum sem tveir verkalýðsforingjar hafa látið um hana falla í vikunni.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, hafa báðir sagt Drífu óheiðarlega og ómerkilega fyrir að hafa skautað yfir ákveðin atriði, sem þeir segja staðreyndir, í pistli sínum á Vísi.is í vikunni.
Drífa sagði þar að verkalýðsforingjarnir tveir hafi viljað draga tímabundið út mótframlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóð til að létta róður fyrirtækja í Covid-faraldinum. Þeir svöruðu Drífu báðir og sögðu hana hafa sleppt því að minnast á skilyrðin sem þeir settu og sögðu hana sjálfa hafa viljað frysta launhækkanir. Þá sögðu þeir hana ekki njóta stuðnings stærstu félaganna innan ASÍ.
Drífa segir þá Ragnar og Vilhjálm fara með rangt mál, en hún hafi svarað þeim á Facebook. „Það var verið að ræða allt. Að frysta launahækkanir var aldrei tillaga sem ég lagði fram en það var eitt af því sem var rætt.“
Hvað stuðninginn varðar bendir Drífa á að forseti ASÍ sé kosinn af fulltrúum aðildarfélaganna á þingi ASÍ. „Það er ágætt að hafa í huga að ég er kosin af fulltrúum á þingi. Það er eitthvað sem kemur í ljós í haust, hvort að ég muni bjóða mig fram aftur, sem ég hef ekki ákveðið,“ segir Drífa.
Henni finnst mikilvægt að reyna að tóna niður deilur á opinberum vettvangi og að nýta frekar kraftana verkefnin sem framundan eru.
„Verkalýðsbaráttan á ekki að snúast um persónur, hún á að snúast um kjör launafólks. Það hefur gengið alltof langt að verkalýðsbaráttan sé að snúast um ákveðna einstaklinga. Þess vegna hef ég viljað vinda ofan af því,“ segir Drífa
Hún hafi lagt tillögu fyrir miðstjórn ASÍ um einhvers konar samskiptafund í þeirri von um að lægja öldurnar, en það sé þó ekkert komið lengra.