Ný og metnaðarfull jöklavefsjá verður kynnt í stjörnuveri Perlunnar sunnudaginn 20. mars. Um er að ræða vef þar sem hægt verður að nálgast mælingar og yfirlit um rannsóknir og breytingar á íslenskum jöklum.
„Þetta er í fyrsta skiptið sem þessi gögn eru tekin saman og gerð aðgengileg á einum stað,“ segir Hrafnhildur Hannesdóttir, sérfræðingur á sviði jöklarannsókna hjá Veðurstofu Íslands og einn ritstjóra jöklavefsjárinnar, í samtali við mbl.is.
Á jöklavefsjánni verða birtar sporðamælingar og gögn um útbreiðslu og afkomu íslenskra jökla og ýmsar aðrar upplýsingar um jöklana.
„Sjálfboðaliðar Jöklarannsóknafélags Íslands hafa séð um sporðamælingarnar frá stofnun félagsins 1950 en á hverju hausti fara þeir á 40-50 mismunandi staði á landinu til að mæla stöðuna á hverju sporði.“
Þar verður einnig hægt að sjá útlínur jökla á ýmsum tímum, sem dregnar hafa verið af jarðvísindamönnum eftir loftmyndum, gervitunglamyndum, kortum og leysimælingum á yfirborði jökla en einnig raktar með GPS-mælingum og greiningu á jökulgörðum og öðrum jarðfræðilegum ummerkjum um fyrri stöðu jökulsporð.
Mesta skrautið, að mati Hrafnhildar, er þó ljósmyndabankinn sem verður að finna á vefsjánni, en hann hefur að geyma fjölda ljósmynda sem teknar hafa verið af íslenskum jöklum og sýna vel þær breytingar sem hafa orðið á þeim í gegnum árin.
„Það eru t.d. yfirlitsmyndir sem teknar hafa verið úr flugvélum af næstum hverjum einasta jökli á Íslandi nema þeim allra minnstu. Það er fjöldinn allur af jöklum á Íslandi sem fá enga athygli því stóru jöklarnir fá alla athyglina.
Svo eru samanburðarmyndir sem hafa annars vegar verið teknar úr lofti og hins vegar á jörðu niðri. Þessum myndum höfum við verið að safna saman á síðustu 5-10 árum en þarna erum við að reyna að koma þeim öllum saman á einn stað.“
Spurð segir Hrafnhildur tilgang vefsjárinnar vera að auðvelda bæði vísindasamfélaginu og almenningi að nálgast upplýsingar um jökla á Íslandi, hvort sem það er til að svala forvitni eða nýta upplýsingarnar til frekari rannsókna.
Loftlagssjóður og verkefnið „Hörfandi jöklar“ á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins styrkja smíði og rekstur jöklavefsjárinnar. Aðrir samstarfsaðilar eru Vatnajökulsþjóðgarður og Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði.
Sem fyrr sagði verður vefsjáin formlega kynnt við hátíðlega athöfn í Perlunni klukkan tvö sunnudaginn 20. mars og hvetur Hrafnhildur alla sem hafa áhuga á að mæta. Að kynningunni lokinni verður gestum boðið á sýninguna „Vatnið í náttúru Íslands“ og sérsýningu um sögu Jöklarannsóknafélagsins.
Jöklavefsjánna er að finna á islenskirjoklar.is.