Sandinum skilað til baka niður í fjöru

Sandinum sem hreinsaður er af lóðum íbúa og fyrirtækja í …
Sandinum sem hreinsaður er af lóðum íbúa og fyrirtækja í Víkurþorpi er skilað aftur í fjöruna. mbl.is/Jónas Erlendsson

Unnið hefur verið að því síðustu vikur að skila sandinum sem fauk upp úr fjörunni í Vík í Mýrdal og inn í þorpið. Honum er skilað aftur niður í fjöruna. Ekki liggja fyrir tölur um magnið sem flutt hefur verið en það skiptir örugglega hundruðum tonna. Mýrdalshreppur verður fyrir miklu tjóni, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Sandur hefur fokið þrisvar sinnum í vetur úr fjörunni og upp í þorpið. Magnið er orðið meira en lengi hefur verið. Þorbjörg Gísladóttir sveitarstjóri segir að þótt mikill sandur hafi fokið inn í þorpið í óveðrinu í byrjun febrúar hafi það sýnst vera viðráðanlegt verkefni að hreinsa hann í burtu. Ástandið hafi hins vegar versnað til muna í öðru óveðri í byrjun mars.

Verktaki á vegum sveitarfélagsins hreinsaði sand og raunar einnig snjó af lóðum grunnskólans og íþróttahússins. Stofnanirnar eru neðarlega í þorpinu og fauk því mikill sandur að húsum þeirra, í sundlaugina og yfir íþróttavöllinn. Fyrirtæki á iðnaðarsvæðinu hafa verið að hreinsa til á lóðum sínum, meðal annars steypustöðin og Vegagerðin. Fóru um 100 tonn af sandi frá steypustöðinni. Sandinum er öllum sturtað niður í fjöru, þaðan sem hann kom.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert