Segist hafa fengið milljón frá Róberti eftir innbrotið

Kristjón segist hafa fengið greitt frá Róberti fyrir að nálgast …
Kristjón segist hafa fengið greitt frá Róberti fyrir að nálgast lykilorð inn á vef Mannlífs. Ljósmynd/Aðsend

Kristjón Kormákur Guðjónsson, fyrrverandi ritstjóri 24.is, segist hafa fengið eina milljón króna frá Róberti Wessman morguninn eftir að hann braust inn á skrifstofu Mannlífs og eyddi efni út af vefnum. Hann hafði áður játað á sig innbrot á skrifstofu Mannlífs í viðtali við Reyni Traustason ritstjóra miðilsins.

Þetta kemur fram á Mannlíf.is þar sem Kristjón rekur aðdraganda innbrotsins og eftirmála.

Kristjón starfaði fyrir Róbert á þessum tíma sem einhvers konar ráðgjafi og segist hafa spurt hann skömmu fyrir innbrotið hvort hann gæti fengið að allt milljón til að greiða manni, sem byggi yfir tölvukunnáttu, til að ná notendanafni og lykilorði til að komast inná vef Mannlífs. Kristjón segir Róbert hafa gefið jákvætt svar við því.

Róbert hefur áður sagt að hann tengist ekki innbrotinu á Mannlíf á nokkurn hátt og fagnaði játningu Kristjóns í málinu.

Segir Róbert hafa verið hissa og spenntan 

Morguninn eftir innbrotið segist Kristjón hafa talað við Róbert í síma og greint honum frá því að hann hefði tölvu Reynis Traustasonar, ritstjóra Mannlífs, undir höndum, án þess þó að fara í saumana atburðarásinni. Kristjón segir Róbert hafa verið hissa og spenntan.

Kristjón segist hafa beðið um greiðslu og fengið 500 þúsund krónur lagðar inn á reikning fyrirtækisins, 24.is. Hann ítrekar að Róbert hafi ekki vitað þá hvaða aðferðum hann beitti til að komast yfir tölvuna. Afrit af millifærslunni fylgir með greininni á vef Mannlífs. Þar kemur fram að Lögsaga lögmannsstofa hafi millifært eina milljón króna í tveimur færslum inn á 24 miðla ehf. þann 21. janúar síðastliðinn.

Fékk pening fyrir nýjum símum

Síðar sama morgun hafi þeir aftur talað saman í síma en þá hafi Róbert verið búinn að komast að því að Kristjón braust inn á skrifstofu Mannlífs og benti honum á að hann hefði framið lögbrot. Sjálfur hefði hann aldrei samþykkt þetta.

Kristjón segist þá hafa sannfært Róbert um að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur, enda hefði hann ekki gert neitt rangt eða komið að innbrotinu með neinum hætti. Þetta hefði einfaldlega verið hefnd Kristjóns gegn Reyni.

Kristjón segist hafa sagt Róberti að útilokað væri að finna út hver fjarlægði efnið af vef Mannlífs en spurði hvort hann gæti fengið pening fyrir nýjum símum sem yfirvöld gætu mögulega staðsett og rakið til hans. Segir hann það hafa verið samþykkt og hann hafi fengið 500 þúsund krónur lagðar á sinn reikning. 

Ekki náðist í Kristjón Kormák þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert