Átti erfitt með að trúa að eldgos væri hafið

Kristín Jónsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.
Kristín Jónsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. Ljósmynd/Aðsend

„Ég var búin að koma mér vel fyrir í sófanum heima í föstudagsstemningu með fjölskyldunni þegar ég fæ símtalið um að gosið sé byrjað. Og ég segi: Þú ert að grínast? Ég hélt þetta væri bara eitthvað grín. En svo heyrði ég alveg á málrómnum að þetta var ekkert grín,“ segir Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands, þegar hún rifjar upp í samtali við mbl.is augnablikið sem hún komst að því að eldgosið í Geldingadölum væri hafið, sem gerðist fyrir nákvæmlega einu ári í dag, 19. mars 2021.

Því lauk hálfu ári síðar, eða þann 18. september.

Mikið hafði gengið á undanfarnar vikur en skjálftahrina hófst með látum á Reykjanesskaganum þann 24. febrúar 2021 með tilheyrandi óþægindum fyrir íbúa á suðvesturhorni landsins, ekki síst bæjarbúa í Grindavík sem fengu hvað mest að finna fyrir hristingnum.

Eldgosið í Geldingadölum.
Eldgosið í Geldingadölum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nokkuð hafði dregið úr virkninni rétt áður en eldgosið hófst og voru því margir sérfræðingar farnir að hallast að því að skjálftahrinan myndi sennilega ekki leiða til eldsumbrota. Það reyndist þó ekki rétt.

Kristín var þó sem betur fer undirbúin og gat því stokkið af stað úr þægindunum með tiltölulega litlum fyrirvara.

„Ég var með allt tilbúið í bílnum mínum og var með þyrlubúninginn þar. Ég brunaði fyrst upp á Veðurstofu að skoða þetta svo fer ég í þyrlu með Gæslunni og fulltrúum frá almannavörnum til að við gætum staðfest að gosið væri byrjað og svo við gætum áttað okkur á hvar það var og hversu kröftugt það væri.“

Tilvalin staðsetning fyrir eldgos

Snemma kom í ljós að ekki væri um mjög öflugt eldgos að ræða og var það í miklu minni sniðum en gosið í Holuhrauni, til að mynda.

Kristín segir bæði krafturinn og staðsetning þess hafa reynst afar heppilegan, þrátt fyrir að það væri staðsett nærri byggð á Reykjanesinu væri það enn í óbyggðum nokkuð fjarri innviðum.

Þá var landssvæðið einnig tilvalið þar sem hraunið safnaðist fyrir í Geldingadölum og afmarkaðist því nokkuð við það svæði til að byrja með.

Ferðamenn hafa samtals farið um 370 þúsund ferðir að gosstöðvunum.
Ferðamenn hafa samtals farið um 370 þúsund ferðir að gosstöðvunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mesta stressið fyrstu dagana

Að sögn Kristínar voru það fyrstu klukkustundirnar og dagarnir frá því að eldgosið byrjaði sem voru hvað óþægilegastir. 

„Í upphafi atburðanna þegar það er mikil óvissa þá er mesta stressið. Þegar maður veit ekki nákvæmlega hvað það er sem maður er að glíma við,“ segir hún.

„Fyrst og fremst þarf að meta hættuna, hver er hættan frá þessu gosi, hvers konar gos er þetta, er hætta fyrir flug, er hætta fyrir innviði, er hætta á að hraun flæði yfir vegi eða jafnvel í byggð.“

Kristína á blaðamannafundi almannavarna vegna gosóróa á Reykjanesi.
Kristína á blaðamannafundi almannavarna vegna gosóróa á Reykjanesi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hún segir þó fljótt hafa komið í ljós að lítil hætta stafaði af gosinu gagnvart innviðum, að minnsta kosti næstu viku.

„Svo fór í gang rosa mikil vinna að fylgjast með gosinu og gera þessi hraunfræðilíkön til að átta sig á því hverjar væru mestar líkur á að hraun myndi breiðast út, sem var mesta váin auk gasmengunar.“

Flestir hegðuðu sér vel

Engu að síður reyndist aukin áskorun fyrir almannavarnir og Veðurstofuna að vinna vinnuna sína þar sem aðgengi að gosstöðvunum var tiltölulega þægilegt og eldgosið, sem er staðsett nálægt þéttbýlasta svæði Íslands, reyndist hafa mikið aðdráttarafl. Gerðu þúsundir Íslendingar sér ferð til að sjá þetta magnaða sjónarspil.

Eins og náðist gjarnar á samfélagsmiðlum hegðuðu þó nokkrir gestir sér glæfralega og freistuðust einhverjir jafnvel til þess að labba á hrauninu, sem almannavarnir voru búin að vara við að væri afar hættulegt.

Kristín segir þó langtum flesta hafa farið eftir ráðleggingum og ábendingum sérfræðinga, og hafa komið vel fram.

„Fólk vill ekki verða sér að voða. Það má líka bara þakka fyrir það, það skiptir okkur máli að hafa þetta traust.“

Þegar ný sprunga opnaðist norð austur af fyrir gosstað.
Þegar ný sprunga opnaðist norð austur af fyrir gosstað. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikilvæg reynsla

Að sögn Kristínar geta vísindamenn og sérfræðingar dregið mikinn lærdóm af eldgosinu.

Um leið og ljóst varð að hraunkvika væri að gera sér leið í gegnum jarðskorpuna hafi Veðurstofan styrkt eftirlitskerfi sitt á svæðinu til muna. Fyrir vikið búum við meðal annars yfir meiri þekkingu á gasmælingum og hraunflæðilíkönum. 

„Á Íslandi koma eldgos á þriggja til fimm ára fresti og þau eru öll ólík, eru á ólíkum stöðum og haga sér ólíkt. Í hverju einasta gosi þá lærum við margt og það nýtist svo í næsta og næsta atburði.“

Þá nefnir hún einnig dýrmæta þekkingu sem hefur fengist með tilraunum með leiðigarða sem var komið upp til að beina hraunflæði frá svæðum með viðkvæma innviði.

Mikið sjónarspil blasti við ferðafólki.
Mikið sjónarspil blasti við ferðafólki. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er auðvitað mjög mikilvæg reynsla að vita: Hvernig byggjum við svona leiðigarða, hvað er það sem virkar, hversu fljót erum við að því, hvað kostar það, og svo framvegis.“

Hún segir þetta mikilvæga reynslu ekki síður í ljósi þess að við gætum verið að fara inn í tímabil þar sem búast má við fleiri gosum á Reykjanesinu.

„Það var innskotsvirkni síðast í desember. Það reyndist vera helmingi minna en það sem var í febrúar - mars í fyrra. Það er nokkuð sem við megum búast við, að það komi fleiri innskot, meiri skjálftavirkni og að fleiri innskot geti orðið að eldgosum.“

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert