Forsenda einkaleyfis ÁTVR myndi bresta

Forstjóri ÁTVR segir frumvarpið fela í sér stefnubreytingu.
Forstjóri ÁTVR segir frumvarpið fela í sér stefnubreytingu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Valið stendur um að halda áfram með núverandi kerfi óbreytt eða einfaldlega fella einkaleyfi ÁTVR til smásölu áfengis niður og gefa hana frjálsa,“ segir í umsögn forstjóra ÁTVR, Ívars J. Arndal, um frumvarp um breytingar á áfengislögum sem heimila munu vefverslun með áfengi.

Forstjórinn segir í umsögn sinni að umrætt frumvarp feli að mati ÁTVR í sér algjöra stefnubreytingu í áfengismálum á Íslandi og forsendubrest fyrir einkaleyfi ÁTVR. „Með fyrirliggjandi frumvarpi er smásala áfengis innanlands í raun gefin frjáls. Ekki er hægt að gera upp á milli eða skilja í sundur „hefðbundna“ smásölu annars vegar og vefverslun hins vegar. Vefverslun er hluti af almennum verslunarrekstri í dag,“ segir í umsögninni.

Ívar Arndal segir að ef einkaaðilum á Íslandi verði leyft að selja áfengi í vefsölu verði sú sala í beinni samkeppni við ríkiseinkasöluna. „Með því er búið að opna fyrir markaðslögmálin og viðskiptahagsmuni einkaaðila með tilheyrandi samkeppni, verðstríði og söluhvötum en öll þessi atriði eru í beinni andstöðu við meginstef gildandi áfengisstefnu hér á landi. Þá verður smásala áfengis ekki lengur grundvölluð á lýðheilsu og almannaheill sem er grundvöllur einkaleyfis ÁTVR. Með því að heimila einkaaðilum slíka verslunarstarfsemi liggur í hlutarins eðli að einkaréttur ÁTVR er um leið liðinn undir lok því ÁTVR uppfyllir ekki lengur skilyrði Evrópuréttar fyrir einkaleyfinu. Yfirlýsingar í frumvarpinu um að því sé ekki ætlað að „hrófla við hlutverki“ ÁTVR standast því ekki skoðun.“ 

Ívar J. Arndal, forstjóri ÁTVR.
Ívar J. Arndal, forstjóri ÁTVR. Ljósmynd/ÁTVR

Máli ÁTVR gegn Sante vísað frá

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í gær frá máli ÁTVR gegn Arnari Sigurðssyni og tveimur fyrirtækjum í hans eigu, Sante ehf. og Santewines SAS, og Bjór­landi í eigu Þórgný Thoroddsen. ÁTVR krafðist þess að þessum aðilum yrði gert að hætta smásölu áfengis í vefverslun. Einnig krafðist ÁTVR bóta vegna tjóns, sem stofnunin hefði beðið vegna þessarar sölu. 

Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari segir í úrskurði að ÁTVR hafi ekki sýnt fram á að stofnunin hefði lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins en ÁTVR sagðist byggja kröfu sína á lögvörðum einkarétti sínum til smásölu áfengis. Þá var það niðurstaða dómarans, að þeir annmarkar og vankantar væru á málatilbúnaði ÁTVR, að þeir leiddu til þess að óhjákvæmilegt væri að vísa málinu í heild sinni frá dómi. Var ÁTVR dæmt til að greiða fé­lög­un­um máls­kostnað.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert