Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segist standa með samþykktri öryggisstefnu fyrir Ísland, þar sem aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO) er einn af þeim þáttum sem hún hvílir á. Þetta segir hún í viðtali við Pál Magnússon í Dagmálum.
Páll nefnir að umtalsverðra viðhorfsbreytinga megi gæta hjá ýmsum þjóðum gagnvart Atlantshafsbandalaginu í kjölfar innrás Rússa. Til að mynda hefur stuðningur við mögulega aðild Finnlands að NATO rokið upp þar sem meirihluti Finna vill ganga í bandalagið.
Samkvæmt nýlegri könnun Prósents styðja nú fleiri kjósendur Vinstri grænna aðild Íslands að NATO en eru andvígir henni, eða um 49%.
Hvort þetta breyti stefnu flokksins, en í stefnu Vinstri grænna er lögð áhersla á að Ísland segi sig úr NATO, segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:
„Við höfum alltaf lagt gríðarlega áherslu á afvopnun, friðsamlegar lausnir umfram allt og talað gegn vígvæðingu. Hvað varðar svo þennan þátt þessarar stefnu varðandi aðild Íslands að NATO, sem segir að Ísland eigi að standa utan NATO þá hef ég ekki orðið vör við umræðu innan hreyfingarinnar um að breyta því.“
Katrín segir að það hafi verið mikið rætt um málefnið á sínum tíma þegar þau fóru í ríkisstjórn.
„Þar sögðum við alveg skýrt, vegna þess að við höfum verið ein með þessa afstöðu af íslenskum stjórnmálaflokkum, að við myndum ekki gera kröfu um þetta í fyrsta lagi og í öðru lagi myndi ég sem forsætisráðherra, og við innan ríkistjórnar, starfa samkvæmt samþykktri öryggisstefnu fyrir Ísland, þar sem aðildin að Atlantshafsbandalaginu er auðvitað einn af þeim þáttum sem hún hvílir á.“
Katrín hefur ekki orðið vör við annað en að mikill stuðningur sé við þá ákvörðun innan hreyfingarinnar að hafa valið þessa leið.
Þegar Katrín er spurð hvort hún sé hlynnt eða andvíg veru Íslands í NATO segir hún:„Ég hef ekki breytt skoðun minni á því og stend með minni hreyfingu í því að telja að okkur sé betur borgið utan þeirra bandalaga. En um leið er ég í þeirri stöðu að ég hef einsett mér að vera algjörlega heil í að standa með þjóðaröryggisstefnunni, og hef gert það.“
Aðspurð hvort hún telji líklegt að tillaga um breytingu á afstöðu flokksins gagnvart NATO komi á næsta flokksþingi segir hún: „Ég er í stjórnmálahreyfingu þar sem einmitt grasrótin ræður för þannig að það er bara svoleiðis að hreyfingin sjálf mótar stefnuna.“