Hyggst kæra Róbert fyrir yfirhylmingu

Reynir Traustason, ritstjóri Mannlífs, Róbert Wessman, forstjóri og stofnandi Alvotech, …
Reynir Traustason, ritstjóri Mannlífs, Róbert Wessman, forstjóri og stofnandi Alvotech, og Kristjón Kormákur Guðjónsson, fyrrverandi ristjóri miðilsins 24.is. Samsett mynd

Reynir Traustason, ritstjóri Mannlífs, hyggst kæra Róbert Wessman fyrir að hylma yfir með Kristjóni Kormáki Guðjónssyni, ritstjóra miðilsins 24.is, sem játað hefur að hafa brotist inn á skrifstofu Mannlífs í janúar síðastliðnum.

„Það er alveg klárt mál að hann [Róbert] vissi af innbrotinu og að Kristjón hafi framið það,“ segir Reynir í samtali við mbl.is.

„Þarna er auðmaður að misnota annan mann“

Sem fyrr sagði játaði Kristjón á sig innbrotið í viðtali við Reyni sjálfan 4. mars síðastliðinn. Í nýjasta tölublaði Mannlífs, sem kom út í gær, er svo haft eftir Kristjóni að hann hafi fengið eina milljón króna frá Róberti Wessman morguninn eftir innbrotið. 

„Hann segir líka frá því að nokkru fyrir innbrotið hafi Róbert sagt við hann að ef hann kæmist yfir tölvuna mína þá væri hann með hakkara til að opna þær,“ segir Reynir og vísar þar í orð Kristjóns í nýjustu umfjöllun Mannlífs um málið.

Líkir Reynir sambandi Róberts og Kristjóns við sambönd ungra kvenna sem „lent hafa í klónum á eldri mönnum“, sambönd þar sem gjarnan ríki „gríðarlegur valdamismunur“.

„Róbert notar peninga til að keyra Kristjón áfram. Ég lít bara þannig á þetta. Þarna er auðmaður að misnota annan mann sem er í erfiðri stöðu af allskonar ástæðum og bjóða honum mikla peninga fyrir eitthvað sem er ekki löglegt.“

Róbert hefur fram að þessu neitað því staðfastlega að hafa átt aðild að innbrotinu líkt og Kristjón hefur haldið fram. Reynir segist hins vegar vera sannfærður um það að þótt Róbert hafi ekki staðið á bakvið innbrotið sjálft hafi hann vitað af því og að Kristjón hafi framið það. Sömuleiðis hafi honum borið að tilkynna brotið til lögreglu en ekki gert það.

„Hann gerði annað og verra sem var að tilkynna mig til siðanefndar Blaðamannafélagsins og dylgja um að ég hafi hugsanlega sviðsett innbrotið. Á þeirri stundu vissi hann að Kristjón hafi framið innbrotið.“

„Kristaltært“ að Róbert hafi vitað af innbrotinu

Spurður segist Reynir ekki ætla að kæra Kristjón fyrir innbrotið. Játning hans liggi nú þegar fyrir og því sé málið opið.

„Ég þarf ekkert að kæra hann en ég þarf væntanlega að leggja fram skaðabótakröfu. Kristjón hefur ekki dregið neitt undan heldur. Hann hefur lofað að bæta fyrir tjónið sem hann olli og við sjáum bara hvernig það þróast,“ segir hann.

Ég hef líka fyrirgefið honum. Það voru mín orð til hans þegar hann hafði samband við mig. Ég sagði við hann að ef hann játaði undanbragðalaust myndi ég fyrirgefa honum en hann yrði þá líka að segja allt,“ bætir hann við.

Hann hyggist hins vegar ætla að kæra Róbert eftir helgina fyrir meinta aðild hans að málinu.

„Ég mun kæra Róbert til lögreglunnar fyrir að hylma yfir með Kristjóni. Það verður þá lögreglunnar að fara ofan í greiðslurnar,“ segir Reynir og vísar þar í þær peningagreiðslur sem Kristjón kveðst hafa fengið frá Róberti í tengslum við innbrotið.

„Auðvitað geta menn logið þvers og kruss og sagt að þeir hafi ekkert átt með þetta að gera en í mínum huga er það alveg kristaltært að hann [Róbert] hafi vitað af þessu sem þýðir að hann hafi gerst sekur um yfirhylmingu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert