„Við verðum að skilja af hverju fólk hegðar sér á ákveðinn hátt til að geta innleitt stefnu og breytingar. Mig langaði einfaldlega að reyna að skilja af hverju fólk kaupir svona mikið af fötum,“ segir Kristín Edda Óskarsdóttir, verðandi félagssálfræðingur. Kristín skilaði nýlega meistararitgerð sinni við Háskóla Íslands sem ber heitið: Á valdi neyslumenningar: Rannsókn á tengslum sálfélagslegra þátta og fataneyslu.
Kristín kveðst alltaf hafa haft mikinn áhuga á tísku og hefur unnið lengi í þeim geira. „Á sama tíma hef ég mikinn áhuga á umhverfismálum og vil hafa jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag. Ég er einn af stofnendum Spjara, fyrstu stafrænu fataleigunnar á Íslandi, sem hefur það að markmiði að bjóða fólki upp á umhverfisvænan kost þegar að það kemur að tísku. Það lá einhvern veginn beint við að vefja saman þessu áhugamáli mínu og sálfræðinni,“ segir hún þegar hún er spurð um val á umfjöllunarefni ritgerðarinnar.
Í útdrætti ritgerðarinnar rekur Kristín að breytingar á neyslumynstri Vesturlanda hafi orðið til þess að offramleiðsla og ofneysla sé á fötum og textíl með neikvæðum afleiðingum fyrir umhverfið og loftslagið. Með tilkomu hraðtísku (fast fashion) kaupi neytendur sér margfalt fleiri flíkur en á árum áður og noti þær sjaldnar.
Kristín gerði rannsókn sem var hluti af samstarfsverkefni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Umhverfisstofnunar um umhverfis- og félagsleg áhrif tísku- og textíliðnaðar en hún var í starfsnámi hjá Umhverfisstofnun. Þar var lagt upp með að skoða tengsl milli sálfélagslegra breyta annars vegar (svo sem efnishyggju, sátt við sjálfan sig og lífið og innfæringu á útlitskröfum samfélagsins) við keypt magn af fötum og textíl og hins vegar tíma og peningum sem eytt var í föt og textíl. Könnun var lögð fyrir nethóp hjá Gallup og fengust 854 svör.
„Vísbendingar eru um að fólk sem kaupir inn á félagslega samþykkt útlit sé líklegra til að kaupa meira af fötum og það verji meiri tíma og peningum til að kaupa föt. Það kaupi föt til þess að uppfylla þessi viðmið,“ segir Kristín um niðurstöður rannsóknarinnar.
Hægara sé sagt en gert að reyna að hafa áhrif til góðs á þennan hóp enda séu skilaboðin frá umhverfinu skýr; ákveðið útlit er hið rétta útlit. Þetta hafi þó mismunandi áhrif á fólk og rannsóknir hafi sýnt að umrædd skilaboð frá markaði og auglýsingum hafi enn frekari neikvæð áhrif á sjálfsmynd fólks, meira að segja þeirra sem segjast kannski bara vera örlítið ósáttir við sjálfa sig.
Á síðari árum hafi svo bæst við áhyggjur af neikvæðum áhrifum hraðtískunnar á umhverfið. „Mín rannsókn tekur á mjög afmörkuðum hluta þessa textílvanda. Bæði er hann mjög flókinn og í öllum fösum frá framleiðslu og til förgunar en frekari rannsókna er klárlega þörf. Það er þó klárt mál að neyslumenningin og hraðtískan er að stærstum hluta sökudólgurinn, fólk verður að einhverju leyti innlyksa í eltingarleiknum við „hið rétta“ útlit sem hefur síðan slæm áhrif á jörðina okkar,“ segir Kristín.
Hún segir að rannsóknin bendi til þess að fólk horfist ekki í augu við vandamálið. Svör þátttakenda hafi verið á þá leið að flestir kaupi sér um það bil eina flík á mánuði en aðrir tvær til þrjár. „En allar úrgangstölur Umhverfisstofnunar benda til þess að þetta sé mikið meira. Hver Íslendingur losar sig við 20 kíló af textíl á hverju ári. Það er full ferðataska á hvern Íslending á hverju einasta ári.“
Kristín segir ennfremur að ekki sé öll nótt úti enn, margt megi enn bæta og tækifæri felist til nýsköpunar. „Fólk getur valið að kaupa minna, kaupa vandaðan fatnað, kaupa notað eða leigja sér föt til að minnka umhverfisspor fataneyslu sinnar. Þá geta fataframleiðendur á Íslandi og innkaupastjórar verslana haft mikil áhrif með því að bjóða viðskiptavinum sínum upp á fatnað sem framleiddur er með ábyrgum og umhverfisvænum hætti. Og halda því á lofti.“
Viðtalið birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. mars.