Fékk knús frá hverju einasta barni

Sigga, Elín og Beta eru afar nánar systur. Þær vita …
Sigga, Elín og Beta eru afar nánar systur. Þær vita fátt skemmtilegra en að vinna saman að tónlist og eru afar spenntar að taka þátt í Eurovision. mbl.is/Ásdís

Þær tínast inn ein af annarri á kaffihúsið, systurnar þrjár, Sigríður, Elísabet og Elín Eyþórsdætur, eða eins og þær kalla sig: Sigga, Beta og Elín. Þær eru frjálslegar í fasi og brosmildar og það er systrasvipur með þeim þótt þær séu ekki beint líkar. Allar eru þær með villt og hrokkið hár; Sigga ljóshærð, Beta rauðhærð og Elín dökkhærð. Við setjumst niður með kaffi og smá kruðerí og komum okkur vel fyrir innan um erlenda ferðamenn og aðra kaffiþyrsta gesti þennan miðvikudagsmorgun. Um síðustu helgi var ljóst að systurnar stóðu upp sem sigurvegarar í Söngvakeppninni með laginu Með hækkandi sól. Þær svífa enn um á bleiku skýi.

Blaðamaður byrjar að sjálfsögðu á hamingjuóskum. Reykjavíkurdætrum hafði verið spáð sigri en þjóðin kaus og sigurinn var afgerandi.

„Ég held fólk hafi vanmetið landsbyggðina. Við áttum ekki von á þessu,“ segir Sigga.

„Við þurfum svolítið að venjast því að hafa unnið og okkur líður alls konar. Það er skrítið að keppa í tónlist. En við erum að meina það þegar við segjum að öll atriðin áttu skilið að vinna. En við lögðum mikla vinnu í þetta og áttum þetta líka skilið. Við erum stoltar af þessu frábæra lagi hennar Lovísu og fáránlega spenntar fyrir þessu,“ segir Elín og hinar tvær taka undir það.

Sannkölluð tónlistarfjölskylda

Sigga er elsta systirin og sú sem talar mest, að eigin sögn. Beta er miðsystirin og er Elín yngst, en fjögur og fimm ár eru á milli elstu og miðsysturinnar og því níu ár á milli elstu og yngstu.

„Það eru fimm ár á milli okkar Betu. Við vorum engar geggjaðar vinkonur fyrst, hún eyðilagði einkabarnslífið mitt. Þú krotaðir út allan hausinn á uppáhaldsdúkkunni minni, ég er varla enn búin að fyrirgefa þér,“ segir Sigga og beinir orðum til Betu og hlær.

Elín, Beta og Sigga eru hér í eins kjólum, eins …
Elín, Beta og Sigga eru hér í eins kjólum, eins árs, fimm ára og tíu ára.

„En í það heila erum við búnar að vera mjög góðar vinkonur og nánar,“ segir Sigga og hinar taka undir. Þær segjast hafa orðið sífellt nánari með árunum, en einnig er afar kært með þeim systrum og Eyþóri litla bróður þeirra sem spilar á trommur í atriði systranna. Foreldrar systkininna eru ástsæla tónlistarfólkið Ellen Kristjánsdóttir og Eyþór Gunnarsson.

Hvernig var að alast upp með foreldra sem voru þekkt tónlistarfólk?

„Mér fannst það alltaf rosalega gaman og ég fór mikið með mömmu og pabba á æfingar. Mér fannst voða ósanngjarnt ef ég mátti ekki koma með,“ segir Beta.

„Ég þekkti ekkert annað. Það var gaman að fara með á æfingar með þeim. En svo man ég líka að þegar maður fór með mömmu eitthvað þá talaði hún við alla sem urðu á hennar vegi; hún gefur öllum tíma. Og pabbi er alltaf til í að gefa sinn tíma þegar kemur að tónlistinni. Þau eru bæði ótrúlega óeigingjarnar manneskjur,“ segir Elín.

Systurnar voru snemma komnar í tónlist og bæði Sigga og Beta lærðu á píanó.

„Mig skorti allan aga til að æfa mig. Ég held ég hafi haldið að af því að mamma og pabbi væru tónlistarmenn, og mér var iðulega sagt hvað ég væri klár, að ég þyrfti ekkert að æfa mig. En svo fóru bara hinir fram úr mér. Ég er með athyglisbrest og vildi bara spila það sem mér fannst skemmtilegt,“ segir Sigga.

„Ég lærði ekki á neitt en er sjálflærð,“ segir Elín.

„Ég lærði á píanó en hætti af því ég nennti því ekki, en sé eftir því núna. En það er erfitt að pína unglinga til að æfa,“ segir Beta.

„Ég er sjálf með athyglisbrest en fór ekki fyrr en 27 ára í kennaradeildina í FÍH í tónlistarnám,“ segir Beta.

Ég tala stanslaust

Nú eruð þið tvær búnar að nefna að þið eruð með athyglisbrest, en þú Elín?

„Já, ég er líka með mjög mikinn athyglisbrest,“ segir Elín og Sigga bætir við að þær séu allar þrjár greindar með ADHD.

„Bróðir okkar greindist miklu yngri en af því stelpur eru oft með öðruvísi einkenni þá uppgötvaðist það ekki strax,“ segir Sigga og segir þær hafa fengið greiningu á fullorðinsárum.

Hvernig brýst það út hjá ykkur?

„Ég tala stanslaust. Í dag kann ég að lesa í félagslegar aðstæður og veit frekar hvenær ég á að þegja. Svo var ég ótrúlega forvitin og hvatvís og kunni engin mörk um hvað ég mætti segja eða spyrja. Ég fór kannski í heimsókn til fólks og lét engan vita, algjörlega ómeðvituð um allt og allir að leita að mér,“ segir Sigga og segir að í dag viti allir að hún sé með ADHD.
„Ég er mjög róleg en er oft í mínum eigin heimi. Ég gleymi öllu og er utan við mig. Mér er ekki treystandi að fara með poka út úr húsi án þess að skilja hann einhvers staðar eftir,“ segir Elín.

„Já, hún kemur aldrei heim til mín án þess að gleyma einhverju hjá mér,“ segir Sigga og þær segjast allar kannast við að vera haldnar frestunaráráttu.

Fór að hágráta

Hvaða leiðir fóruð þið í lífinu og við hvað starfið þið þegar þið eruð ekki í tónlist?

„Ég fór í MH og hætti eftir tvo mánuði. Ég er búin að vera í skóla lífsins síðan og er ekkert lærð nema ég tók miðstigið í tónfræði. Á mínum yngri árum var ég að ferðast; bjó í New York sem var mikið ævintýri en ég lifði þá hálfgerðu bóhemlífi og sé ekkert eftir því í dag. Svo eignaðist ég strák fyrir þremur árum og færðist úr bóhemlífinu. Ég hef fyrst og fremst verið mamma síðustu ár, auk þess að vinna hjá velferðarsviði þar sem ég vinn nú á sjálfstæðri búsetu með frábæru fólki,“ segir Elín og segir það sérstakt að þær systur séu nú áberandi í fjölmiðlum.

„Ég sem er svo mikið introvert, en það stuðar mig ekki þannig. Þetta fylgir þessu, en við urðum eiginlegar frægar yfir nótt,“ segir Elín.

Sigga er gift Bandaríkjamanni og á fjögur börn, það yngsta er þriggja ára stúlka sem hún á með eiginmanninum en fyrir átti hún þrjá drengi sem eru nú stálpaðir.

„Ég fór ekki í menntaskóla fyrr en eftir að ég eignaðist fyrsta barnið mitt. Ég fór út eins og Elín, að ferðast og vann sem au-pair. Svo fór ég í menntaskóla og tók líka sjúkraliðann, en ég elska að vinna með börnum með sérþarfir. Skemmtilegasta vinna sem ég veit; það er draumavinna. Ég ætlaði alltaf í hjúkrun eða tónlist og fór þá í Listaháskólann og kláraði tónsmíðar þar. Eftir það tók ég einkaþjálfarann og nú er ég líka að læra hjúkrun. Ég er svolítið úti um allt og veit ekki hvað ég vil verða þegar ég er orðin stór,“ segir Sigga sem segist nú þurfa að taka sér hlé frá hjúkrunarnáminu til að taka þátt í Eurovision.

„Ég elska að vinna með fólki og finna að ég get hjálpað, en tónlist er líka svo heilandi,“ segir Sigga.

Beta kláraði ekki menntaskóla en hún fór út átján ára sem au-pair.

„Ég eignaðist svo strákinn minn 21 árs og var í skóla lífsins en þegar ég var 27 fór ég í kennaradeildina eins og ég nefndi, en mitt aðalstarf er að kenna börnum tónlist í Hjallastefnunni,“ segir Beta og segist gjarnan vilja þakka mentorum sínum og fyrirmyndum, þeim Þórdísi Heiðu Kristjánsdóttur og Hildi Guðnýju Þórhallsdóttur.

„Það er þeim að þakka að ég er í þessu dásamlega starfi sem tónlistarkennari. Ég væri ekki í þessu án þeirra. Það er besta vinna í heimi! Ég mætti á mánudaginn í vinnuna og öll börnin og allir kennarar tóku á móti mér með blóm, syngjandi lagið. Ég fékk knús frá hverjum einasta nemanda og kennara og fór bara að hágráta. En nú þarf ég að taka mér frí og það er svo mikill skilningur og stuðningur,“ segir Beta.

Að taka þátt í ævintýrinu alla leið

Nú horfa tæpar 200 milljónir á Eurovision, hvernig leggst það í ykkur?

„Það skiptir minna máli fólkið sem er að horfa heima; ég geri mér enga grein fyrir þeim fjölda. Ég er meira stressuð að standa fyrir framan áhorfendur og sjá þeirra viðbrögð,“ segir Sigga.

Systkinin tóku sig vel út á sviðinu um síðustu helgi. …
Systkinin tóku sig vel út á sviðinu um síðustu helgi. Eyþór er á trommum og Sigga, Elín og Beta syngja og spila á gítara lagið Með hækkandi sól. Það var vel fagnað þegar úrslitin lágu fyrir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þær viðurkenna að það sé auðvitað stressandi að vera í beinni útsendingu og segja að það örli á kvíða yfir að gera mistök, en að þær ætli ekki að einblína á það.

„Það er svo mikil fegurð í mistökunum líka,“ segir Sigga.

„Já, ef eitthvað fer úrskeiðis þá er það bara svo, við erum mannlegar,“ segir Elín.

„Ég vil kenna börnum að það er allt í lagi að gera mistök. Það er enginn fullkomin,“ segir Beta.

„Við erum ekki á neinum stalli, við erum bara manneskjur,“ segir Sigga.

Hafið þið einhverja hugmynd um í hvaða sæti þið lendið?

„Nei, ég er bara föst í núinu. Það er svo mikið í gangi núna og ég hef raunverulega ekki hugsað út í þetta,“ segir Elín.

„Auðvitað langar okkur að komast á úrslitakvöldið til að fá að taka þátt í ævintýrinu alla leið. En ég get bara lofað því að við gerum okkar besta og höldum afram að vera við sjálfar. Þá mun okkur ganga eins vel og hægt er,“ segir Sigga.

Erum hluti af hver annarri

Viljið þið nota Eurovision sem stökkpall fyrir frægð og frama?

„Þetta er ótrúlega gott tækifæri sem við viljum auðvitað nýta okkur til að koma áfram okkar tónlist,“ segir Beta.

Systurnar segja allar að draumurinn sé að vera í fullu starfi við að vera í hljómsveit og fá að spila úti um allan heim.

„Alveg absólút,“ segir Beta.

Sigga, Beta og Elín vonast til að komast áfram og …
Sigga, Beta og Elín vonast til að komast áfram og fá að stíga á svið á úrslitakvöldinu í Torínó á Ítalíu í maí. mbl.is/Ásdís

Systurnar koma undir nafninu Systur þegar út verður komið, en lagið verður flutt á íslensku. Þær fara út 30. apríl og verða á Ítalíu í tvær vikur.

Hvernig mun ykkur ganga að vera saman í tvær vikur dag og nótt?

„Það verður geggjað!“ segir Beta.

„Við erum sko alltaf saman. Við munum rífast svona tvisvar, en það fer eftir því hvar við erum í tíðahringnum,“ segir Sigga og þær skellihlæja.

„Já, það er sko hræðilegt! Því þær eru samtaka í tíðahringnum og þá er ég ein á móti tveimur,“ segir Beta.

„Takk fyrir að segja alþjóð hvenær við erum á túr,“ segir Sigga og hlær.

 „En að öllu gamni slepptu rífumst við sjaldan en ef það gerist leysum við fljótt allan ágreining sem kemur upp. Við erum svo rosalega nánar að við erum í raun hluti af hver annarri.“

Ítarlegt viðtal er við systurnar Siggu, Betu og Elínu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 



Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert