Syrgjandi foreldrar segja kerfið hafa brugðist

Foreldrar tveggja ára stúlku sem lést eftir að hafa fengið …
Foreldrar tveggja ára stúlku sem lést eftir að hafa fengið Covid-19 segja heilbrigðiskerfið hafa brugðist. mbl.is/Líney Sigurðardóttir

Arnar Þór Ómarsson og Petra Bergrún Axelsdóttir, foreldrar Berglindar Bjargar sem lést aðeins tveggja ára gömul eftir að hafa veikst af Covid-19, segja heilbrigðiskerfið hafa brugðist.

Frá þessu greina foreldrarnir í samtali við Vísi.

Veikindin voru væg í fyrstu en ágerðust hratt

Arnar og Petra búa ásamt börnum sínum á Þórshöfn í Langanesbyggð í Norður-Þingeyjarsýslu. Fyrsta sunnudaginn í mars veiktist Berglind Björg, dóttir þeirra. Veikindin höfðu verið væg til að byrja með en svo ágerst hratt, að sögn foreldra hennar.

Hjónin hringdu á Læknavaktina en þar ráðlagði starfsmaður þeim að hafa dóttur þeirra við opinn glugga þar sem einkennin lýstu sér sem barkabólga, sem þau svo gerðu.

„En það gerði ekkert gagn og hún á enn erfitt með að draga andann. Við sjáum alveg á brjóstkassanum á henni að þetta er erfitt. Þannig við hringjum aftur,“ segir Arnar.

Í þetta skiptið óskuðu hjónin eftir að fá að tala við lækni þar sem þeim finnst Berglind eiga orðið verulega erfitt með að anda.

Læknirinn sem Arnar talaði við var staddur á Kópaskeri sem …
Læknirinn sem Arnar talaði við var staddur á Kópaskeri sem er í um 70 km. fjarlægð frá Þórshöfn. Kort/Google

Vakthafandi læknir var 70 kílómetra í burtu

„Ég fæ að tala við lækninn. Hann talar um að það séu 70 kílómetrar að keyra til mín og hvort það megi ekki koma hjúkrunarfræðingur til mín,“ segir Arnar. Læknirinn hafi svo hringt á hjúkrunarfræðing sem starfar á dvalarheimili í Þórshöfn sem hafi svo farið heim til fjölskyldunnar en stoppað stutt við.

„Hún hlustar á henni bakið og segir að þetta sé eiginlega bara í nefinu á henni. Hún reynir svo að taka súrefnismettun á puttanum á henni sem gengur ekki því hún er með svo lítinn putta, en við erum búin að heyra að það á að setja á stóru tána á litlum börnum. Þannig að hún sleppir því bara alfarið.

Hjúkrunarfræðingurinn hafi verið með Covid-próf meðferðis en ekki talið þörf á því að skima Berglindi, að sögn Arnars, sem segist þá hafa spurt hjúkrunarfræðinginn hvort hún vildi ekki prófa þá foreldrana. Hjúkrunarfræðingurinn hafi þó ekki talið þörf á því heldur, þótt Arnar hafi sjálfur verið með stíflað nef í einhverja daga.

„Hún segir að þetta sé bara í nefinu á henni og að við eigum að gefa henni Nezeril og hitalækkandi og svo er hún bara farin,“ segir Arnar.

mbl.is/Eggert

Reyndu að hnoða og blása lífi í dóttur sína

Eftir að hjúkrunarfræðingurinn fór átti Berglind verulega erfitt með andardrátt, að sögn Petru. Hún hafi þá ákveðið að gefa dóttur sinni hitalækkandi lyf.

„Hún sofnar og sefur á bringunni á mér. Ég treysti mér ekki til þess að fara sofa því ég vildi bara fylgjast með henni,“ segir Petra.

Berglind hafi þó sofið slitrótt og liðið mjög illa. Þegar Petra stóð svo upp með hana sá hún að varir hennar væru farnar að blána.

„Þá vek ég pabba hennar og segi honum að hann verði að hringja á Neyðarlínuna því að þetta sé bara ekki eðlilegt,“ segir Petra.

Arnar hringir þá í 112, lýsir ástandinu og segist þurfa að fá sjúkrabíl. Því næst leggur hann dóttur sína í gólfið og byrjar að blása og hnoða.

„Hún deyr bara hjá mér á meðan ég er að reyna blása í hana lífi,“ segir Arnar.

Sjúkraflutningamennirnir hafi svo komið og barist með foreldrunum „fram í rauðan dauðann“ í tvo klukkutíma og reynt allt sem þeir gátu til að halda Berglindi á lífi, að sögn Arnars.

Fljótlega eftir að sjúkraflug kom frá Akureyri varð þó ljóst að Berglind var látin.

Arnar og Petra hafa tilkynnt málið til Embættis landlæknis.
Arnar og Petra hafa tilkynnt málið til Embættis landlæknis. Eggert Jóhannesson

Segja mikilvægt að hlustað sé á foreldra

Frumniðurstöður krufningar leiddu svo í ljós að Berglind hafi sýkst af kórónuveirunni, sem hafi svo ráðist á barkann í henni og lokað honum, að sögn foreldranna.

Arnar og Petra segja heilbrigðiskerfið hafa brugðist þeim og að þau séu bæði sár og reið heilbrigðisstarfsfólkinu sem þau höfðu leitað til en ekki hlustað á þau. Þau telja mikilvægt að það sé hlustað á foreldra.

„Það eru foreldrar sem að þekkja börnin sín best,“ segja þau.

Hjónin hafa ákveðið að flytja á Akureyri þar sem þau treysta sér ekki til að búa með syni sína eins langt frá sjúkrahúsi og þau gera í Þórshöfn. Bæði segja þau læknisþjónustuna á landsbygðinni vera óásættanlega. Hún sé lítil og oft sinnt af afleysingafólki sem komi í skamma stund í einu.

Systir Petru og nafna Berglindar litlu lést í sjúkraflugi árið 1977 á sama stað. Arnar segir að þá líkt og nú hafi læknir ekki hlustað á foreldra en Berglind, systir Petru, reyndist vera með sprunginn botnlanga.

Málið hefur verið tilkynnt embætti landlæknis sem alvarlegt atvik og er einnig í rannsókn hjá lögreglu, að því er fram kemur í umfjöllun Vísis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert