Allt of margir búi við læknaskort

Sjúkrabílaþjónusta á landsbyggðinni þarf að vera góð. Mynd úr safni.
Sjúkrabílaþjónusta á landsbyggðinni þarf að vera góð. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Læknaskortur er víða um land og því miður búa of margir landsmenn við þann skort. Þetta segir Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður velferðarnefndar Alþingis.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 var rætt við foreldra tveggja ára stúlku sem lést eftir að hafa fengið Covid-19 fyrr í mánuðinum. Foreldrar hennar segja kerfið hafa brugðist og ætla að flytja frá Þórshöfn á Langanesi á Akureyri þar sem þau treysta sér ekki til að búa svo langt frá sjúkrahúsi.

„Auðvitað þarf að manna allar læknastöður,“ segir Líneik og bendir á að það sé til að fólk geti búið á sem flestum stöðum og fundið fyrir öryggi.

„Það verða ekki læknar í hverju byggðarlagi og þar er þá mikilvægt að til staðar séu hjúkrunarfræðingar og öflug sjúkrabíla- sjúkraflutningaþjónusta. Þetta heildarsamspil verður náttúrulega að vera tryggt“ bætir hún við.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Arnþór

Að sögn Líneikar er unnið að því að bæta stöðuna á landsbyggðinni en hún bendir á að nú séu fleiri í námi til heimilislæknis en hafi verið mörg undanfarin ár. 

„Þá skiptir líka máli að hluti af menntun sé þjálfun í starfi í dreifbýli. Það er oft mun flóknara verkefni og til að læknar séu tilbúnir að starfa við þannig aðstæður þurfa þeir þjálfun og menntun. Við verðum að eiga heilbrigðisstarfsfólk sem kann og getur starfað í dreifbýli.“

Læknir sem sinnir Þórshöfn er á Kópaskeri, sem er í …
Læknir sem sinnir Þórshöfn er á Kópaskeri, sem er í um 70 kílómetra fjarlægð. Kort/Google
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert