Dönsk lögregla í hart við Íslending

Gísli Tryggvason situr ábúðarfullur á svip yfir málsgögnunum í danska …
Gísli Tryggvason situr ábúðarfullur á svip yfir málsgögnunum í danska sendiráðinu í Reykjavík í dag þaðan sem hann tók til varna fyrir dönskum héraðsdómi, en íslenskum skjólstæðingi hans er gefið að sök að hafa virkjað eignaupptökuákvæði umdeildra danskra laga um óðs manns akstur á bifreið sem hann hafði á leigu. Ljósmynd/Aðsend

„Þarna er um að ræða íslenskan ferðamann í Danmörku sem leigir sér bíl og ekur yfir mörkum,“ segir Gísli Tryggvason lögmaður í samtali við mbl.is, tiltölulega nýstiginn út úr allóvenjulegum málflutningi þar sem hann kom fram sem verjandi íslensks sakbornings fyrir dönskum héraðsdómstól, staddur í fullum skrúða í danska sendiráðinu í Reykjavík, studdur fjarfundabúnaði.

Skjólstæðingur Gísla ók bílaleigubifreið sinni á um 110 kílómetra hraða miðað við klukkustund, þar sem hámarkið var að sögn lögreglu 50, lenti í mælingu lögreglu og stendur nú frammi fyrir gallhörðum og um leið nýjum lagabókstaf hinna dönsku, lögum um óðs manns akstur, eða lov om vanvidskørsel eins og þau heita upp á dönsku, sem gildi tóku 31. mars í fyrra og gera dönskum yfirvöldum heimilt að dæma ökutæki, sem notuð hafa verið við gróf umferðarlagabrot, upptæk ríkinu. Greindi mbl.is frá máli af sama toga í febrúar.

Þó ekki alveg af sama toga. Í tilvísuðu máli hafði ökumaðurinn nýlega keypt bifreiðina, en í málinu sem Gísli fæst við hyggst danska ríkið gera bílaleigubifreið upptæka þar sem hún var notuð við brotið. Bílaleigan mun svo í framhaldinu gera endurkröfu á Íslendinginn sem hér er ákærður, krefja hann um bílverðið auk þess að rukka leigu fyrir tímabilið frá því lögregla gerði bifreiðina upptæka.

„Þess vegna fórum við fram á að fá málflutningi í þessum þætti málsins, það er að segja þeim sem snýr að eignaupptökunni, flýtt, svo ekki bættust svimandi leigukröfur ofan á hugsanlega sekt og allan annan kostnað,“ útskýrir Gísli, en sekt, og eftir atvikum ökuleyfissvipting, bætist við þau refsikenndu viðurlög sem uppgjör alls bílverðsins gagnvart bílaleigunni yrði. Þungur kross svo ekki sé sterkar að orði kveðið.

„Hreinlega of harkaleg viðbrögð“

Segir Gísli lagabókstaf Dananna ósveigjanlegan. „Það eru í rauninni tvö skilyrði fyrir eignaupptökunni í þessu tilviki, aka þarf yfir 100 kílómetra hraða auk þess sem hraðinn þarf að vera að minnsta kosti tvöfaldur leyfilegur hámarkshraði. Fyrst var það álitamál hvort hann hefði verið á svæði merktu 50, hann hélt fyrst að hann hefði verið á svæði merktu 60, en hugsanlega var hann rétt kominn yfir á þéttbýlissvæði,“ segir verjandinn sem stillir nú upp þeim varnarmúr sem framast er unnt.

„Varnir okkar á þessu stigi byggja á lagalegum atriðum, það er erfitt að vefengja mælingu lögreglu í sakamáli. Krafa okkar um að hnekkja haldlagningunni byggir á lagalegum rökum um heimild til undantekningar við sérstakar aðstæður og þar með að vikið verði frá þessari skyldubundnu haldlagningu. Auk þess byggjum við á fordæmum frá Mannréttindadómstól Evrópu og Hæstarétti Danmerkur um að þetta séu hreinlega of harkaleg viðurlög við minni háttar gáleysi,“ segir Gísli.

Með upptöku bifreiðarinnar og endurkröfu leigusala yrðu viðurlög ökumannsins á fjórðu milljón íslenskra króna fyrir utan ökuréttindasviptingu, að sögn Gísla, „og það eru hreinlega of harkaleg viðurlög við ekki stærra broti.“

Geta sent sviptingarmál til Íslands

Hvað með ökuleyfissviptinguna, gildir slík svipting þá eingöngu þar í landi eða getur danskur dómstóll svipt ferðamann þeim ökuréttindum sem hann hefur á Íslandi?

„Ef hann verður sviptur ökurétti í endanlegu sakamáli, þegar það fer fram, þá gildir það bara í Danmörku, en danska lögreglan getur hins vegar sent málið heim til Íslands til úrlausnar og þá er hægt að svipta hann hérlendis í sérstöku sakamáli og við munum auðvitað taka til varna þar líka ef svo fer, því hann hefur hagsmuni af því að halda ökuréttindum hér,“ svarar Gísli.

Hann hefur verið í sambandi við fulltrúa bílaleigunnar sem í hlut á og segir þann þátt geta boðið upp á annað mál fari allt á versta veg. „Við myndum þá annaðhvort reyna að ganga til samninga við bílaleiguna eða taka til varna á neytendaréttargrundvelli og þá á þeim forsendum að þeir [bílaleiguforkólfar] hafi ekki gert nægilega grein fyrir því, þegar leigutaki undirgekkst skilmálana, að hann gæti átt von á fjögurra milljóna króna aukakostnaði vegna ofsaaksturs, þetta er náttúrulega eitthvað sem Íslendingar þekkja ekki til,“ segir Gísli.

Akureyringur fæddur í Bergen

Hann kveðst ekki þekkja til fordæma í Danmörku, þar sem aðstæður eru nákvæmlega með þeim hætti sem í þessu máli eru, og gæti málið því hugsanlega orðið prófmál hvað það snerti, það er upptöku bílaleigubifreiðar og endurkröfu á hendur leigutaka.

Gísli var lengi búsettur í Danmörku og reyndar fæddur í Bergen í Noregi og leika skandinavísku málin honum því á tungu enda hefur töluvert af lögmannsstörfum hans snúist um mál sem rekin eru Norðurlanda á milli og hefur hann hvort tveggja flutt mál fyrir færeyskum dómstól sem og dönskum, þar á meðal Eystri landsrétti sem er á danska millidómstiginu.

Gísli er margreyndur í norrænum samskiptum, enda fæddur í Noregi …
Gísli er margreyndur í norrænum samskiptum, enda fæddur í Noregi og lengi búsettur í Danmörku. Ýmis mál reka því á fjörur hans í lögmennskunni sem teygja anga sína til frændþjóðanna. Ljósmynd/Aðsend

„Ég lít þó alltaf á mig sem Akureyring,“ segir Gísli, enda sonur eins af annálaðri skólameisturum landsins þar nyrðra, Tryggva Gíslasonar sem stýrði Menntaskólanum á Akureyri um áratuga skeið. Málflutningur í ranni danska sendiráðsins hafi því hvergi skotið Gísla skelk í bringu, með svo öflugan samnorrænan bakgrunn, en lögmannsstofa hans ber einmitt hið norræna heiti Advokat, eða Lögmaður upp á íslensku.

Dómsorð eftir viku

„Við fórum fram á að þurfa ekki að fara til Danmerkur í málareksturinn og það var boðið upp á fjarfundabúnað og dómstóllinn var svo vænn að finna okkur stað í sendiráðinu, það er nokkuð um það að sendiráðið hafi milligöngu um málflutning og fyrirtökur svo þar er allt til alls og þetta voru bara fínar aðstæður,“ segir Gísli.

„Niðurstaðan í þessum þætti kemur eftir viku og svo verður sakamálaþátturinn fluttur í lok apríl,“ segir Gísli Tryggvason verjandi að lokum og bíða þeir skjólstæðingur hans því nú dómsorðs dansks héraðsdómstóls um hvort íslenskur ökumaður á dönskum vegum þurfi að greiða bílaleigu þar í landi andvirði bifreiðar, auk hugsanlegrar sektar og ökuleyfissviptingar, fyrir að aka á 110 kílómetra hraða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert