Tveir íslenskir lögreglumenn farnir til Póllands

Tveir íslenskir lögreglumenn eru komnir til Varsjá í Póllandi þar …
Tveir íslenskir lögreglumenn eru komnir til Varsjá í Póllandi þar sem þeir munu aðstoða einstaklinga með tengsl við Úkraínu sem vilja koma til Íslands. AFP

Tveir íslenskir lögreglumenn á vegum embættis ríkislögreglustjóra fóru út til Póllands á föstudaginn og aðstoða nú við innritun í flug til Íslands á Chopin-flugvellinum í Varsjá. Aðstoðuðu þeir nokkra einstaklinga með tengsl við Úkraínu sem vildu koma til Íslands en uppfylltu ekki kröfur viðkomandi flugfélags um ferðaskilríki. Frá þessu er greint í nýrri stöðuskýrslu landamærasviðs ríkislögreglustjóra.

Jafnframt kemur þar fram að nokkur tilfelli hafi komið upp hjá landamærayfirvöldum í Úkraínu að undanförnu þar sem fylgdarmenn ólögráða barna framvísa mögulega fölsuðum vottorðum eða yfirlýsingum til að sanna fjölskyldu- /forráðatengsl þeirra.

Samtals hafa nú 319 einstaklingar frá Úkraínu sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi frá því að stríðið braust út, en þar af eru 174 konur, 92 börn og 53 karlar. Heildarfjöldi einstaklinga með tengsl við Úkraínu sem sótt hafa um vernd síðustu 7 daga er 138 eða um 20 einstaklingar að meðaltali á dag. Bendir embættið á að ef sjö daga meðaltal sé notað sem forspárgildi um umsóknir um vernd næstu 4 vikur megi gera ráð fyrir að samtals verði fjöldinn um 470 manns.

Frá áramótum hafa samtals 623 einstaklingar sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi og er því rúmlega helmingur þeirra frá Úkraínu. Þar á eftir eru 184 einstaklingar frá Venesúela, en auk þess eru umsækjendur frá 23 öðrum löndum sem hafa sótt um vernd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert