Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, vildi ekki tjá sig um þau ummæli Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrverandi forseta, að stækkun NATO hefði leitt til styrjaldar, í samtali við mbl.is á Bessastöðum í morgun.
Ummæli Ólafs Ragnars um innrás Rússa í Úkraínu og svo Vladimír Pútín, forseta Rússlands, hafa vakið athygli eftir að þau féllu í viðtali í Silfri ríkissjónvarpsins á sunnudag.
Ólafur gagnrýndi þar Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið fyrir að hafa gefið úkraínsku þjóðinni fyrirheit um aðild að samböndunum sem ráðamenn í Evrópu ætluðu sér síðan ekki að efna.
„Kannski ættum við að líta á nýjan hátt á þessar kenningar sem urðu ekki ofan á, því sú lína sem varð ofan á var; stækkum NATO, tökum fleiri lönd inn og niðurstaðan af því er þetta hræðilega stríð,“ sagði Ólafur meðal annars.
Egill Helgason, stjórnandi þáttarins, spurði þá:
„Myndirðu segja beinlínis, að það að þessi lönd gengu í NATO, sé beinlínis ástæðan fyrir stríðinu?“
„Nei, ég er ekki að segja að það sé ástæðan, en við verðum að hafa, um leið og við gagnrýnum Rússa miskunnarlaust fyrir þessa styrjöld og hvernig er farið er með fólkið, þá verðum við líka að hafa intellekt, heiðarleika og kjark til þess að horfast í augu við það að, til dæmis viðskiptaþvinganirnar sem við settum á eftir Krímskagann, þær hafa engum árangri skilað,“ svaraði Ólafur og bætti við:
„Það að stækka NATO og stækka NATO hefur leitt til mestu styrjaldar í Evrópu, það hefur alla vega ekki komið í veg fyrir það, og svo höfum við talið okkur sjálf trú um það að Rússland væri svo veikt efnahagslega.“
Guðni hefur sjálfur áður fordæmt innrás Rússa í Úkraínu og sagt meðal annars:
„Sjálfstæði og fullveldi ríkja má ekki skerðast við það að þau eigi landamæri að hernaðarveldi.“