Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir það viðvarandi verkefni að bæta læknisþjónustu á landsbyggðinni. Alltaf megi gera betur.
„Ég held að það sé viðvarandi verkefni. Við erum alltaf að hlusta, læra og reyna þjónusta alla landsbyggðina þannig allir fái heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Við erum með heilbrigðisstofnanir sem að sinna þessu svæði, mannskap í það, samninga um sjúkraflutninga og sjúkraflug. Þannig við erum auðvitað alltaf að reyna gera okkar besta en það má alltaf gera betur.“
Á þann veg svarar hann gagnrýni sem kemur í kjölfar andláts tveggja ára telpu sem lést eftir að hafa veikst af Covid-19, en foreldrar hennar telja að kerfið hafi brugðist sér.
Willum segir að slík mál fari í sérstakan farveg.
„Þetta er auðvitað bara harmleikur og hugur minn er hjá fjölskyldunni og aðstandendum. Svona mál fara í sérstakan farveg. Alvarleg tilvik fara í skoðun hjá embætti landlæknis, þar sem öll málsatvik eru könnuð og á meðan er það nú bara venjan að tjá sig ekki um tiltekin mál.“
Spurður hvernig standi til að bæta stöðuna á landsbyggðinni segir Willum að það sé í stöðugri skoðun.
„Það er alltaf aðgengi að síma, lækni og heilbrigðisstarfsfólki, og allir að gera sitt besta, en við skoðum auðvitað alltaf hvað er hægt að gera betur.“