Andlát: Guðrún Helgadóttir

Guðrún Helgadóttir rithöfundur varð 86 ára.
Guðrún Helgadóttir rithöfundur varð 86 ára. mbl.is/Ómar Óskarsson

Guðrún Helgadóttir, rithöfundur, fyrrverandi alþingismaður og forseti Alþingis, lést í nótt á hjúkrunarheimilinu Mörk í Reykjavík. Guðrún var 86 ára að aldri en hún fæddist í Hafnarfirði 7. september 1935.

Foreldrar Guðrúnar voru þau Helgi Guðlaugsson sjómaður og Ingigerður Eyjólfsdóttir húsmóðir. Hún giftist Hauki Jóhannessyni verkfræðingi árið 1957 og eignuðust þau eitt barn saman. Þau skildu tveimur árum síðar en árið 1964 giftist hún Sverri Hólmarssyni kennara. Saman eignuðust þau þrjú börn. Þau skildu árið 1983.

Fyrst kvenna forseti Alþingis

Guðrún hlaut stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1955. Hún hóf störf hjá skólanum tveimur árum síðar sem rektorsritari og var þar til ársins 1967. Síðar tók hún við sem deildarstjóri félagsmála- og upplýsingadeildar Tryggingastofnunar ríkisins, og gegndi hún því starfi á árunum 1973 til 1980.

Guðrún var borgarfulltrúi í Reykjavík á árunum 1978 til 1983. Hún var ritari Alþýðubandalagsins frá 1977 til 1983 og fulltrúi í Norðurlandaráði frá 1983 til 1988. Hún sat í þingmannanefnd EFTA/EES á árunum 1991 til 1995 og í útvarpsráði 1995 og í tryggingaráði 1995.

Á árunum 1979 til 1987 var Guðrún landskjörinn alþingismaður og á árunum 1987 til 1995 var hún alþingismaður Reykvíkinga. Þá var hún kjörin forseti sameinaðs Alþingis 1988 og var hún fyrst kvenna til að gegna því embætti.

Ástsæll rithöfundur

Guðrún er þó ekki síður þekkt fyrir skáldsögur sínar og leikrit sem einkum voru ætluð börnum og unglingum. Skrifaði hún meðal annars bækurnar um bræðurna Jón Odd og Jón Bjarna, sem komu út árið 1974, og einnig þríleikinn Sitji guðs englar, Saman í hring og Sænginni yfir minni.

Hefur henni verið lýst sem einum ástsælasta barnabókahöfundi Íslands en hún hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir störf sín sem rithöfundur. Þar á meðal Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar fyrir framlag sitt til íslenskrar tungu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert